Gul- og grænklæddir ökumenn í umferðarhnúti um miðja nótt
Lögreglan á Sauðárkróki lenti í því í nótt að þurfa að greiða úr ótrúlegum umferðarhnúti sem skapaðist við gatnamót Skagfirðingabrautar og Sæmundarhlíðar. Varð þetta um kl. 4 síðustu nótt og kom lögreglumönnum í opna skjöldu.
Að sögn lögreglunnar gekk hvorki né rak við gatnamótin fyrr en búið var að greiða úr ástandinu með umferðarstjórn lögreglunnar. Voru grænklæddir ökumenn áberandi pirraðir yfir ástandinu sem skapaðist á meðan gulklæddir ökumenn stigu út úr bílum sínum og sungu og trölluðu þrátt fyrir umferðarhnútinn. Lá við handalögmálum á gatnamótunum á milli þeirra á tímabili.
-Við vissum eiginlega ekki hvað gekk á þarna á gatnamótunum, sagði lögreglumaður í samtali við Dreifarann. Það var með ólíkindum að sjá ökumenn þarna skipast í tvær sveitir gul- og grænklæddra ökumanna og afar áberandi hvað þeir gulklæddu voru hressari, sagði lögreglumaðurinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.