Gleðiganga Árskóla
Hin árlega gleðiganga Árskóla á Sauðárkróki fór fram í dag í ekta íslensku vorveðri, sunnan roki og rigningu á köflum. En það var ekki að sjá á andlitum grunnskólanemanna að veðrið væri ekki eins og best væri á kosið þar sem flestir voru skælbrosandi og glaðbeittir enda um gleðigöngu að ræða.
Þessi litríki og skemmtilegi viðburður setur svip sinn á bæjarfélagið á Króknum. Nemendur og starfsfólk skólans klæðir sig skrautlega upp, málar sig í framan og bæjarbúar gera sér oft ferð til að sjá hópinn þramma um bæinn. Gleðigangan í ár er sérstaklega ánægjuleg þar sem hún er merki um að lífið og tilveran sé að falla aftur í réttar skorður eftir erfiðan vetur.
Hersingin lagði af stað upp frá Árskóla og var fyrsta stopp við elliheimilið og sjúkrahúsið þar sem farið var í leiki og sungið fyrir áhorfendur. Næst var gengið eftir Skagfirðingabrautinni að Ráðhúsi bæjarins og endaði gangan svo aftur í Árskóla þar sem þátttakendur fengu grillaðar pylsur.
Að venju skartaði 10. bekkur litríkum peysum sem að þessu sinni var skærgulur. Litríkum pönkurum brá fyrir sem og margs konar kvikindum. Skólahópur Ársala hefur í vetur fengið að taka þátt í skólastarfi Árskóla og tóku að sjálfsögðu þátt í göngunni. Þetta var í síðasta sinn á þessu skólaári þar sem allur hópurinn kemur saman því á morgun eru skólaslit og að þeim loknum halda nemendur út í sumarið.
/SHV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.