Gengistryggðu lánin og kaup á stofnfé
Staða bænda sem hafa staðið í eðlilegum fjárfestingum á síðustu árum er mjög þröng og á það sérstaklega við um þá sem tekið gengistryggð lán sem hafa reyndar verið dæmd ólögleg.
Við hrunið var tjón fjármagnseigenda að mestu tryggt á einni nóttu en skuldugir bændur og almenningur eru enn látin dingla hálfkæfð í skuldasnöru. Við erum að tala um vel á annað ár!
Fjórflokkurinn hefur leyft umræðunni að snúast algerlega á hvolf þar sem almenningur sem skuldar svokölluð gengistryggð lán er settur í stöðu betlara sem þarf úrlausn sinna vandamála. Bankastjórarnir sem veittu lánin eru í hlutverki höfðingja sem geta af rausnarskap sínum gefið eftir einhvern hluta lána.
Hér eru höfð ósvífin endaskipti á hlutunum, bankarnir sem enn hafa sömu kúlulánastjórnendur í forsvari lánuðu nytsömum sakleysingjum, veðjuðu síðan gegn íslensku krónunni og grófu undan virði hennar og forsendum samninga. Það má líkja þessu athæfi við að bankinn gerði samning um leigu á húsnæði sem fæli í sér ströng ákvæði um að skila því til baka í mjög góðu ásigkomulagi á ný en senda innbrotsþjófa jafnharðan og blekið er þornað á samningnum til að brjótast inn og eyðileggja og koma þannig algjörlega í veg fyrir að hinn aðili samningsins gæti staðið við hann.
Í siðuðu samfélagi héngi ekki almenningur í snörunni heldur bankamennirnir. Þeir sem settu landið á hausinn með blekkingum, markaðsmisnotkun og fjárdrætti eiga að sæta ábyrgð.
Í Húnaþingi vestra er fjárhagur fimmta hvers heimilis í uppnámi vegna kaupa á stofnfé í Sparisjóði Húnaþings og Stranda sem stofnað var til við sameiningu þeirra við Sparisjóð Keflavíkur. Ein meginástæða vandræða og falls sameinaðs Sparisjóðs Keflavíkur var samkrull sparisjóðsins við skulda- og útrásarlið, einkum Bakkarvararbræður í Existu. Það er umhugsunarvert að stjórnvöld og lífeyrissjóðirnir settu það í algjöran forgang að endurreisa Bakkavararbræður sem eiga stóra sök á hruni sparisjóðsins en stofnfjáreigendur eru látnir bíða í óvissu.
Það er óskiljanlegt að stjórnvöld skuli ekki hafa forgöngu um að leyst verði úr gengistryggðum lánum með almennum hætti í stað þess að bíða eftir staðfestingu Hæstaréttar á dómi héraðsdóms um lögmæti gengistryggðu lánanna. Það er ljóst að á hvorn veginn sem dómur Hæstaréttar fellur kallar hann á talsverða vinnu við úrlausn mála.
Sigurjón Þórðarson
formaður Frjálslynda flokksins
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.