Fyrsta stökkmót öldunga í Varmahlíð

Þátttakendur og starfsfólk stökkmóts UÍ Smára í öldungaflokkum. Myndir:  Sarah Holzem.
Þátttakendur og starfsfólk stökkmóts UÍ Smára í öldungaflokkum. Myndir: Sarah Holzem.

Stökkmót UÍ Smára í öldungaflokkum fór fram í íþróttahúsinu í Varmahlíð laugardaginn 23. apríl 2022. Keppt var í fjórum greinum; hástökki með og án atrennu, langstökki og þrístökki án atrennu. Fimm keppendur mættu til leiks í karlaflokkum en því miður enginn í kvennaflokkum.

Fjórir keppendur komu frá UMSS, þeir Karl Lúðvíksson í fl. 70-74 ára, Sigurjón Leifsson í fl. 50-54 ára, Theodór Karlsson í fl. 45-49 ára og Guðmundur Elíasson í fl. 40-44 ára. Einn keppandi kom frá Ungmennafélaginu Keflavík og það var Helgi Hólm í fl. 80-84 ára. Hann á mörg Íslandsmet í nokkrum aldursflokkum í þessum fjórum stökkgreinum. Íslandsmet hans í hástökki með atrennu í fl. 80-84 ára er 1,22 m og litlu munaði að hann næði að bæta það á þessu móti. Hann færði UÍ Smára innrammað plakat að gjöf með lista yfir aldursflokkamet öldunga í atrennulausum stökkum og hástökki með atrennu innanhúss og mæltist til að það yrði hengt upp í íþróttahúsinu öðrum til hvatningar, sjá HÉR.

Til gamans má geta þess að Karl Sören Theodórsson (12 ára, verður 13 ára 17. júní) fékk að vera með í langstökki og þrístökki án atr. Hann stökk 2,26 m í langstökki og 6,49 m í þrístökki. Einnig má geta þess að í fyrra var Helgi Hólm með svona mót í Keflavík. Þar mættu einnig aðeins fimm keppendur, auk Karls Sörens, sem þá fékk líka að keppa með sem gestur og þá var ákveðið að undirritaður reyndi að fá stjórn UÍ Smára til að koma sambærilegu móti á í Varmahlíð. Því var vel tekið en dróst auðvitað að koma því á vegna Covid-19 þangað til núna í apríl.

Mótstjóri og yfirdómari var Gunnar Sigurðsson og önnur störf önnuðust þær Sarah Holzem formaður UÍ Smára og þær Steinunn Arnljótsdóttir og Anna Bára Sigurjónsdóttir.

Kaupfélag Skagfirðinga var bakhjarl þessa móts. Þórólfur kaupfélagsstjóri tók vel í beiðni okkar um fjárstyrk til að styðja við iðkun frjálsíþrótta í öldungaflokkum á vegum UÍ Smára og fyrir það erum við mjög þakklát.

/Karl Lúðvíksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir