Flutti frá Eyjum gosnóttina
Eyjólfur Ármannsson er oddviti Fólks flokksins í Norðvesturkjördæmi. Eyjólfur er fæddur í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna Guðjóns Ármanns Eyjólfssonar frá Vestmannaeyjum og fv. skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík og Aniku Jónu Ragnarsdóttur, húsmóður og sjúkraliða. Hann er þriðji í röð fjögurra systkina. Gosnóttina flutti fjölskyldan frá Eyjum til Reykjavíkur þegar hann var þriggja og hálfs og ólst hann þar upp. Sem barn og unglingur var Eyjólfur mikið í sveit á Hrafnabjörgum í Lokinhamradal milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar en móðurfjölskylda hans kemur þaðan, Bóndabýlið er í eigu fjölskyldunnar og dvelur Eyjólfur þar eins mikið og hann getur á hverju ári.
Eyjólfur náði kjöri í kosningunum 2021 og hef verið varaformaður fjárlaganefndar og allsherjar- og menntamálanefndar, sem og í Vestnorrænaráðinu og þing-mannanefnd heimskautsráðsins. Hann er lögfræðingur frá Háskóla Íslands, nam í Evrópu-rétti við Kaþólska háskólann í Leuven í Belgíu og framhalds-nám í lögfræði við Pennsyl-vaníuháskóla í Bandaríkjunum. Eyjólfur er formaður Orkunnar okkar og gætti hagsmuna land-eigenda í Arnarfirði og Dýrafirði í þjóðlendumálum og starfaði áður m.a. hjá norrænu stór-bönkunum DNB og Nordea, og verið aðstoðarsaksóknari í efna-hagsbrotadeild.
Hvað er það við pólitíkina sem heillar og áttu þér fyrirmynd í pólitíkinni? „Í stjórnmálum er tækifæri til að hafa áhrif á eigið samfélag og taka þátt í mótun þess. Þetta er vettvangur til að berjast fyrir hugsjónum sínum og síns flokks og berjast fyrir því að sú sýn nái fram að ganga. Eitt sem ekki má gleymast og er mjög áhugavert er að pólitík á Íslandi er flokkapólitík, þar sem þú ert hluti af liði sem þú vinnur með.
Get ekki sagt að ég hafi mér fyrirmynd í pólitík. Hef mikinn áhuga á sögu og margir áhugaverðir stjórnmálamenn, bæði innlendir og erlendir sem maður lítur upp til og hafa eflaust haft áhrif á mann. Tveir þeir merkilegustu er að mínu mati Jón Sigurðsson, með sitt einstaka framlag í sjálfstæðisbaráttunni, og Hannes Hafstein, sem var fyrsti ráðherra landsinser Ísland fékk heimastjórn 1904, sem var mikilvægur áfangi í baráttunni fyrir fullveldi Íslands, sem fékkst 1918.
„Um aldamótin 1900 vorum við eitt fátækasta ríki Evrópu en í dag á með þeim ríkustu. Við þurfum bara að tryggja jafnari skiptingu. Mikilvægt er að minnast framlaga þeirra stjórn-málamanna og -kvenna sem ruddu brautina á hverjum tíma.“
Hvers vegna á fólk að kjósa þinn flokk? „Flokkur fólksins ætlar að útrýma fátækt á Íslandi og því óréttlæti sem því fylgir. Tryggja að allir fái lifað mann-sæmandi lífi og þá sérstaklega lágtekjufólk, öryrkjar og aldraðir. Við viljum að hætt verði að skattleggja fátækt og skatt-leysismörk verði hækkuð í 450.000 kr. á mánuði hjá þeim sem hafa lágar tekjur með „fallandi persónuafslætti“.
Afnema á skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna hið fyrsta. Það á aldrei að refsa fólki fyrir að vilja vinna. Hækka á sérstakt frítekjumark lífeyristekna í 100.000 kr. á mánuði og veita öryrkjum heimild til að prófa sig áfram á vinnumarkaði í tvö ár án skerðinga. Það er stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi í landinu og það nær líka til öryrkja og aldraðra. Við berjumst fyrir því að starfsgetumat öryrkja, sem ríkisstjórnin lögfesti síðasta vor og mun að óbreyttu taka gildi næsta haust, verði felld úr gildi. Enginn metur getu fólks til að taka þátt í lífinu og veita sér sjálfsbjörg.“
Hvaða þrjú mál vilt þú setja á oddinn fyrir íbúa Norðvesturkjördæmis? „Heilbrigðis- og velferðarþjónusta, en efla þarf heilsugæslu í héraði með aukinni þjónustu lækna og hjúkrunar-fræðinga, og samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu sveitarfélaga.
Innviðauppbygging er stærsta áskorunin, stórbættar vegasamgöngur og raforkumál sem eru undirstaða atvinnu-uppbyggingar.
Frjálsar handfæraveiðar smábáta, sem yrðu mikil lyftistöng fyrir allar sjávarbyggðir. Króka-veiði strandveiðibáta ógnar ekki fiskistofnum. Það skortir því rök fyrir takmörkun á atvinnufrelsi íbúa sjávarbyggðanna til handfæraveiða.
Allt eru þetta mikilvæg mál til jöfnunar búsetuskilyrða í landinu.
Hvað sérðu sem stærstu áskorunina fyrir NV-kjördæmið? „Innviðauppbygging er stærsta áskorunin, sbr. hér að ofan. Einnig heilbrigðismál en efla þarf heilsugæslu í héraði með aukinni þjónustu lækna og hjúkrunarfræðinga, og samþætta heilbrigðis- og félags-þjónustu sveitarfélaga.
Gera þarf stórátak í sam-göngum. Við ættum að vera að grafa tvenn jarðgöng á hverjum tíma. Við höfum ekki verið í jarðgangnagerð síðan 2020 er við lukum við gerð Dýrafjarðarganga. Mikilvægt er að þetta sé fastur liður á fjárlögum. Þegar að byggingu nýs Landspítala lýkur á næstu árum og er stór liður á fjárlögum, eigum við að tryggja það að þessum lið verði varið til innviðauppbyggingar á landsbyggðinni og til að greiða þá áratugagömlu innviðaskuld sem allir stjórnmálamenn eru sammála um að Norðvestur-kjördæmi eigi rétt á að fá greidda með nauðsynlegum framkvæmdum.“
Virkja þarf meira og auka afhendingaröryggi rafmagns með endurnýjun flutningskerfis í kjördæminu og hringtengingu til Vestfjarða og til Snæfellsness. Tryggja þarf að raforkusveit-arfélög fái réttlát fasteignagjöld virkjunum innan sveitarfélagsins og þau fái notið nálægðar við þau í atvinnuuppbyggingu. Skýran lagaramma þarf um sjókvíaeldi og aukið eftirlit og aðstöðugjöld af kvíum til sveitarfélaga.
Standa þarf vörð um fjölskyldubúið í hefðbundnum landbúnaði, jafnframt því að stutt verið við aukna tekjumöguleika bænda á búum sínum. Mikilvægt er að auka hlut ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra í atvinnulífinu, sem og í öllu kjördæminu. Þar eru bættar samgöngur mikilvægar.“
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? „Ég bara man það ekki, var kannski ekki svo mikið að spá í það. Kannski læknir en ég byrjaði í læknisfræði og heimspeki áður en ég fór í lögfræði.“
Hver er elsta minningin sem þú átt? „Elsta minning sem ég á er frá gosnóttinni í Vestmanna-eyjum, þegar við, foreldrar mínir með fjögur ung börn, ég þá 3,5 árs og yngri systir ekki orðin 3ja mánaða, flýjum gosið í Eyjum. Ég man þegar ég stóð í stofunni og horfði út um stofugluggann, allt fólkið við höfnina og í bátnum sem flutti okkur upp á fasta landið.“
Hvar og hvenær sástu nú-verandi maka þinn fyrst? „Ég kynntist sambýliskonu minni í Osló þegar ég bjó þar og sá hana fyrst á kaffihúsi í borginni, en Osló er mjög skemmtileg borg og gott að vera þar án bíls.“
Hvernig slakar þú á og hvað ertu með á kantinum? „Ég les og reyni að hlusta á tónlist. Ég er byrjaður að lesa bækur aftur sérstaklega fyrir svefninn, en hef líklega eins og margir horft full mikið á skjá og þá sérstaklega í símanum. Það er frábært að hvíla skjáinn á kvöldin og lesa bók, maður sefur og hvílist miklu betur.“
Eyjólfur hefur mikinn áhugaá því sem er að gerast í heiminum og sögu og stjórnmálum. Undanfarið hefur hann fylgst með forsetakosningunum í Banda-ríkjunum, sem voru sögulegar að hans sögn og hefur Eyjólfur haft áhuga á þeim frá því hann var skiptinemi í menntaskóla.
Eyjólfur er með flösku af vatni eða í mesta lagi te með hunangi á kantinum, kannski ekki spennandi eins og hann sjálfur segir en bætir við að óhætt sé að mæla með því. /gg
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.