Flúðasigling, draugagangur og lofthræðsluþrautir

Dagana 18. – 21. maí fór 10. bekkur Höfðaskóla á Skagaströnd  í langþráða útskriftarferð um Suðurlandið og höfuðborgarsvæðið.

 
Ferðasagan er tekin af heimasíðu skólans; -Veðrið lék við okkur allan tímann, sól og hiti. Á mánudeginum var byrjað á að fara í litbolta í Grafarvogi, þar sem margir fengu skrámur en komust þó lifandi frá hildarleiknum. Þaðan lá leiðin í Smáralind til að kíkja í búðir, bíó og borða á Pizza Hut. Það var þreyttur en ánægður hópur sem bjó um sig í Gljúfurbústöðum í Ölfusi um kvöldið.
Eftir morgunmat á þriðjudeginum fengum við leiðsögn um Gjábakkahelli á Lyngdalsheiði. Það tók á að klöngrast yfir stórgrýti með smá ljóstýru á höfðinu en var fyllilega þess virði. Eftir skoðunarferð um Þingvelli skunduðum við í Bláa lónið og létum líða úr þreyttum vöðvum um leið og við mökuðum á okkur kísilleðju. Gleðilætin í hópnum fór eitthvað í taugarnar á starfsmanni Lónsins sem hótaði að henda kennaranum út vegna óspekta.
Nú voru allir komnir í góðan gír til að sigrast á þrautum. Á miðvikudeginum þurftu margir að taka á honum stóra sínum þegar kom að flúðasiglingu á Hvítá. Allir létu sig hafa það og óx ásmegin við hverja þraut, sérstaklega við að stökkva af bjargi út í jökulánna og bjarga sér á sundi í land. Embla okkar fékk titilinn „Hetja dagsins“ eftir átökin. Þá beið okkar kajaksigling og sund á Stokkseyri. Deginum lauk svo með heimsókn í Draugasafnið þar sem draugar gerðu ítrekaðar tilraunir til að hræða úr okkur líftóruna (að sjálfsögðu tókst það ekki).
Uppstigningadagur var lokadagurinn í ferðinni. Adrenalíngarðurinn á Nesjavöllum var áskorun dagsins þar sem tekist var á við ýmsar jafnvægis- og lofthræðsluþrautir. Eftir þær þrautir gat allur hópurinn flaggað hetjutitlinum. Þá áttum við bara eftir að fara í Lágafells-sundlaug og snæða á Subway. Það var þreyttur og glaður hópur með margar góðar minningar í farteskinu, sem kvaddist um kvöldið heima á Skagaströnd.

Myndir úr ferðinni má sjá á myndasíðu skólans

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir