Fljótamót orðið næststærsta skíðagöngumót landsins

Kempurnar Magnús Eiríksson (t.v.) og Þórhallur Ásmundsson (t.h.) eru meðal margra skíðagöngukappa sem Fljótin hafa alið. Mynd: Örn Þórarinsson.
Kempurnar Magnús Eiríksson (t.v.) og Þórhallur Ásmundsson (t.h.) eru meðal margra skíðagöngukappa sem Fljótin hafa alið. Mynd: Örn Þórarinsson.

Skíðagöngumót í Fljótum, sem haldið var í fyrsta sinn á skírdag 2014, undir yfirskriftinni Fljótamót, er nú orðið að árvissum viðburði. Er það þegar orðið næststærsta skíðagöngumót landsins, og aðeins hin rótgróna Fossavatnsganga á Ísafirði sem dregur til sín fleiri keppendur, að því er haft var eftir Birni Z. Ásgrímssyni, einum af forsvarsmönnum mótsins, í Morgunblaðinu í gær.

Að þessu sinni verður mótið haldið á föstudaginn langa og hefst það kl. 13:00. Keppt verður í 20 km í karla- og kvennaflokki á aldrinum 16-34, 35-49, 50-59 og 60 ára og eldri. Í vegarlengdunum 5 og 10 km verður keppt í karla- og kvennaflokki 16 ára og eldri. Einnig verður keppt í flokki drengja og stúlkna í vegalengdunum 5 km og 10 km á aldrinum 12-15 ára, og 2,5 km fyrir 6-11 ára og 1 km fyrir 3-5 ára.

Mótsgjald er 2500 krónur fyrir 16 ára og eldri, en kr. 1000 fyrir yngri keppendur. Skráning fer fram kl. 11:30-12:30 og greiðist mótsgjald við skráningu. Mótsstjóri er Birgir Gunnarsson. Veitt verður aðstoð og ráðleggingar varðandi smurningu og áburð. Veitir Birgir nánari upplýsingar í síma 897 3464 og er einnig mælst til að keppendur skrái sig á viðburðinn sem stofnaður hefur verið á fésbókarsíðu mótsins, Skíðagöngumót í Fljótum.

Að mótinu loknu verða veitingar í félagsheimili Fljótamanna, Ketilási og eru þær innifaldar í keppnisgjaldi fyrir þátttakendur en veitingasala verður fyrir gesti. Einnig verður happdrætti þar sem dregið verður úr rásnúmerum keppenda.

Segja má að í Fljótum sé vagga gönguskíðamenningar á Íslandi og þar fór fram fyrsta skíðagöngumót landsins, fyrir rúmum hundrað árum. Úr Fljótum hafa löngum komið miklir skíðagöngukappar, m.a. Ólympíufararnir Trausti Sveinsson og Magnús Eiríksson. Fljótin eru enda þekkt fyrir mikil snjóalög og má í því samhengi rifja upp eftirfarandi vísu, þó að því miður sé gleymt hver höfundur hennar er:

Fljótin hafa fái þekkt
faðmi vafin grónum.
Þar er afar yndislegt
allt á kaf‘ í snjónum.

Tengdar fréttir:

Frá Fljótamóti 2014

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir