Fjárdauði í Skagafirði
Á bænum Höskuldsstöðum í Blönduhlíð hafa átján gemlingar og fullorðnar ær drepist eftir að hafa borið dauðum lömbum en alls eru þau orðin þrjátíu. Rannsóknarniðurstöður hafa ekki borist.
Að sögn Gests Stefánssonar ábúanda á Höskuldsstöðum hafa lömbin drepist í ánum og valdið einhverskonar fóstureitrun hjá þeim sem á endanum gefa upp öndina. Mörg lambanna koma ullarlaus sem gefur til kynna að þau séu lengi líflaus í móðurkviði og það getur valdið því að ærnar hætta að nærast og verða veikar.
Einar Otti Guðmundsson dýralæknir hefur tekið sýni og sent á Tilraunastöð HÍ að Keldum til greiningar en segir að enn sé lítið hægt að segja þar sem niðurstöður þaðan séu ekki komnar. –Staðan er í bið og enn er orsökin óþekkt, segir Einar.
Gestur er ekki ánægður með gang mála þar sem honum finnst langan tíma taka að fá rannsóknarniðurstöðurnar. –Bóndanum er alltaf kennt um þetta en það var allt í toppstandi hér í vetur, segir Gestur sem telur tilraunastöðina að Keldum ónýtan stað ef ekki verður komist fyrir þessa vá.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.