Ferðamönnum í ógöngum bjargað af Kjalvegi
Óbreytt stjórn er hjá Björgunarfélaginu Blöndu í Húnabyggð en aðalfundur var haldinn í apríl. Á Facebook-síðu félagsins kemur fram að skemmst sé frá því að segja að það urðu engar breytingar á stjórninni þar sem Þorgils Magnússon formaður, Kristófer Kristjánsson, gjaldkeri og Arnar Freyr Ómarsson, varaformaður.
„Við hvetjum fólk sem hefur áhuga á að kynna sér starfið í Bf. Blöndu og eða ganga í sveitina endilega að vera óhrædd við að vera í sambandi við okkur. Sérstaklega vantar okkur fleiri konur í þetta starf með okkur. Þetta snýst um svo miklu meira en að sparka í dekk. Glæsilegt nýtt húsnæði er nánast orðið klárt og nú er ekkert sem stoppar okkur í að fara að gera eitthvað annað og skemmtilegra en að vinna í því,“ segir í færslu félagsins.
Það var einmitt það sem beið björgunarfélaga í upphafi vikunnar að snúa sér að öðru en sníða og snitta í nýja húsnæðinu því fyrsta útkall fram á Kjalveg leit átti sér stað en eins og allir aðrir hálendisvegir er Kjalvegur lokaður. Hvað vegfarendur eru að gera á fólksbíl á lokuðum niðurgröfnum ýtuslóðum á hálendi Íslands er ekki gott að segja en í athugasemd Blöndu gæti svarið leynst, þ.e. að GPS tækið segi að þarna væri stysta leiðin á Gullfoss.
„Það er greinilega farið að vora því fyrsta útkall fram á Kjalveg er mætt í hús. Frakkarnir voru samt ótrúlega seigir að komast þó þetta langt norðan megin frá en þeir voru komnir nánast að Gíslaskála. Veðrið fínt og engin hætta á ferð sem betur fer,“ segir ennfremur á Facebook-síðu Bf. Blöndu.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.