Ferðamáladeild Hólaskóla býður upp á fjarnám í haust
Undanfarin ár hafa margir óskað eftir að ljúka BA námi í ferðamálafræði við ferðamáladeild Háskólans á Hólum alfarið í fjarnámi. Þessi möguleiki verður til staðar frá og með komandi hausti.
Þeir nemendur sem hafa lokið diplómaprófi geta nú innritast á 2. ár í BA námi, hvort sem er í fjarnámi eða staðnámi.
Miklar vonir eru bundnar við ferðaþjónustuna í þeirri efnahagsuppbyggingu sem nú þarf að eiga sér stað á Íslandi. Þekking og færni í greininni er forsenda þess að sú uppbygging verði farsæl. Nú sem aldrei fyrr, er þörf fyrir vel menntað fólk sem getur tekið þátt í nýsköpun og uppbyggingu greinarinnar af fagmennsku og virðingu fyrir auðlindum lands og þjóðar.
Markmið ferðamáladeildar Háskólans á Hólum með BA-námi í ferðamálafræði er að bjóða upp á fjölbreytt, hagnýtt og raunhæft nám.
Reynslan sýnir að BA nemendum útskrifuðum frá Ferðamáladeild Háskólans á Hólum hafa boðist fjölbreytt atvinnutækifæri að námi loknu. Þessi breyting gerir fleirum kleyft að afla sér aukinnar menntunar til að efla sig og sína atvinnugrein.
Tilhögun námsins er annars vegar hefðbundið staðnám á Hólum í Hjaltadal, en hinsvegar lotubundið fjarnám. Það er að námið fer bæði fram í vefumhverfi og með staðbundnum lotum þar sem nemendur og kennarar vinna saman. Sjá nánar á www.holar.is. Nánari upplýsingar veitir einnig Guðrún Helgadóttir starfandi deildarstjóri gudr@holar.is og Vigdís Gunnarsdóttir námsráðgjafi vigdis@mail.holar.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.