Sigur í tveimur af þremur leikjum í Lengjubikar
Lengjubikarinn í knattspyrnu er farinn af stað og hefur Mfl. kvenna í Tindastóli leikið þrjá leiki og unnið tvo þeirra. Tindastóll leikur í C-deild kvenna, og er í 2. sæti með 6 stig í riðli 3.
Fyrsti leikurinn var gegn Fjarðabyggð/Hetti í Boganum á Akureyri þann 20. mars þar sem Tindastóll tryggði sér öruggan sigur, 3-0. Þann 3. apríl mættu Stólastúlkur Einherja frá Vopnafirði og fór sá leikur einnig fram í Boganum. Leikurinn var markalaus framan af en á 50. mínútu skoraði Ólína Sif Einarsdóttir fyrir Tindastól og ellefu mínútum síðar setti samherji hennar, Elín Sveinsdóttir, boltann í netið. Úrslit 2-0.
Þá léku stúlkurnar á móti Völsungi á Húsavíkurvelli sl. laugardag. Fyrsta mark leiksins kom á 12. mínútu og var það Völsungurinn Hulda Ösp Ágústsdóttir sem skoraði. Annað markið skoraði samherji hennar Sigrún Vala Hauksdóttir á 24. mínútu. Á 41. mínútu skoruðu Völsunar sjálfsmark og skömmu síðar setti Stólastúlkan Bryndís Rut Haraldsdóttir boltann í netið. Hulda Ösp skoraði sitt annað mark á 52. mínútu og Særún Anna Brynjarsdóttir skoraði nokkrum mínútum síðar fyrir Völsung. Lokamark leiksins skoraði Hugrún Pálsdóttir fyrir Tindastól, lokastaða 4-3 Völsung í vil.
Næst mæta stúlkurnar liði Hamrana í Boganum laugardaginn 23. apríl. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.