Eyjarnar gerðar sýnilegri
Hvað er að gerast í fjörunni, spyr Sk.com í dag en verið er að vinna á gröfu í sandhólunum neðan Sauðárkróks. Bendir Sk.com á það að Borgarsandurinn - eða bara fjaran - telst ein af perlum Skagafjarðar ef marka má ferðabæklinginn Skagafjörður - Skemmtilegur í fríinu. Enda hin snotrasta sandfjara og ekki skemma sandhólarnir fyrir með sína fallegu melgresiskolla.
En hvað er að gerast? Feykir hafði samband við Ingvar Pál Ingvarsson hjá Sveitarfélaginu Skagafirði sem upplýsti Feyki um að verið sé að búa til eyjasýn þar sem sandhólarnir eru það háir að þeir skyggja á eyjarnar á Skagafirði hjá þeim sem eru að renna í bæinn. –Sandurinn er orðinn vel bundinn og allt í lagi að lækka hólana. Þeir verða lækkaðir þannig að þeir sem eru í fólksbílum geta séð út til eyjanna og notið þeirra fegurðar sem þær bjóða upp á, segir Ingvar Páll og bendir á að einungis verða hólarnir lækkaðir frá innkeyrslu í bæinn neðan Vegagerðar og að bænum. –Hægt verður að sjá perlur nær og fjær, segir Ingvar Páll.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.