Endurreisum stjórnir heilbrigðisstofnana
Á þeim erfiðu tímum sem þjóðin stendur frammi fyrir í ríkisbúskapnum þá er ljóst að ekki verður komist hjá niðurskurði og forgangsröðun á öllum sviðum. Við slíkar aðstæður skiptir máli að vandað sé til verka og leitast sé við að ná sem mestri sátt við þá sem hlut eiga að máli.
Lengi vel var kveðið á um í lögum um heilbrigðisþjónustu að sveitarstjórnir skyldu tilnefna á hverju þjónustusvæði þrjá fulltrúa í fimm manna stjórn heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa; starfsmenn tilnefndu einn og var sá fimmti skipaður af heilbrigðisráðherra án tilnefningar. Árið 2003 var lögunum breytt á þann veg að forstöðumaður stofnunarinnar hefði einn umsjón með rekstri hennar en stjórnirnar voru lagðar niður. Þær höfðu þó aldrei haft ákvörðunarvald um daglegan rekstur heldur aðeins verið ráðgefandi um skipulag og þjónustu stofnananna auk þess að hafa eftirlit með rekstri þeirra.
Nú höfum við nokkrir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lagt fram þingsályktunartillögu um að endurreisa stjórnir heilbrigðisstofnana. Eins og segir í henni yrði heilbrigðisráðherra falið „að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frumvarp til laga sem tryggir beina aðkomu fulltrúa sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana að skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu á þjónustusvæði viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Markmiðið með frumvarpinu er að auka íbúa- og atvinnulýðræði og sjónarmið og óskir heimamanna og starfsmanna heilbrigðisstofnana fái að ráða meiru en nú er þegar heilbrigðisþjónusta á svæðinu er skipulögð og þjónustunni forgangsraðað.“
Með þessu teljum við að styrkja megi stöðu heilsugæslunnar, m.a. sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga, auka nærþjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Auk þess takist betur að samhæfa starfsemi heilbrigðisstofnana og að íbúar hvers svæðis geti haft meiri áhrif á það hvernig forgangsröðun er háttað.
Ásmundur Einar Daðason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.