Ekki forsendur fyrir byggingu íþróttahúss að svo stöddu
Byggðarráð Skagafjarðar telur ekki forsendur til að hefja framkvæmdir við byggingu íþróttahúss á Hofsósi á grundvelli tilboðs Hofsbótar ses og Ungmennafélagsins Neista þar um.
Í fundargerð byggðarráðs kemur fram að öll forvinna er of skammt á veg komin til að forsvaranlegt sé fyrir sveitarstjórn að taka skyndiákvörðun um þátttöku í verkefninu og ýmsir þættir er lúta að framkvæmdinni óljósir. Lýsir byggðarráð þó yfir vilja sveitarfélagsins til þess að starf vinnuhóps aðila sem stofnaður var um verkefnið haldi áfram og tengist vinnu sveitarfélagsins að þarfagreiningu og stefnumörkun sveitarstjórnar í uppbyggingu íþróttamannvirkja og forgangsröðun fjárfestingarverkefna til framtíðar litið. Um leið og byggðarráð þakkar þann áhuga og stórhug sem tilboðsgjafar sýna þessu verkefni vísar ráðið hugmyndum um byggingu íþróttahúss á Hofsósi að öðru leyti til umfjöllunar í Félags- og tómstundanefnd í tengslum við vinnu nefndarinnar að tillögu til sveitarstjórnar um forgangsröðun uppbyggingar íþróttaðstöðu í sveitarfélaginu.
Bjarni Jónsson bókaði að fleiri kynslóðir skólabarna frá Hofsósi og nágrannabyggðum hafi ekki átt þess kost að hafa aðgang að boðlegri íþróttaaðstöðu á svæðinu. Nú hafa íbúar tekið saman höndum um að breyta því og staðið fyrir almennri fjársöfnum og áheitum meðal heimafólks sem nægir fyrir talverðum hluta kostnaðar við byggingu lítils íþróttahúss í tengslum við nýja sundlaug á Hofsósi. Einnig er miðað við að lagt verði í umtalsverða sjálboðaliðsvinnu til að bygging íþróttahúss geti orðið að veruleika. Þegar hefur verið lagt í mikla vinnu við undirbúning af hálfu aðstandenda verkefnisins. Því sé mikilvægt að unnið verði áfram að farsælli lausn og útfærslu verksins með heimamönnum sem allir aðilar geta fellt sig við.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.