Ekkert ferðaveður í kortunum
Það gengur á með éljum á Norðurlandi vestra og veðurspáin gerir ráð fyrir vetrarveðri með snjókomu og stífum vindi næstu tvo sólarhringana eða svo. Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun á Ströndum og Norðurlandi vestra frá kl. 23 í kvöld sem stendur til kl. 6 í fyrramálið en þá tekur við gul viðvörun eitthvað fram eftir morgni. Holtavörðuheiði er lokuð sem stendur og óvíst hvenær hún verður opnuð aftur..
Veðurstofan gerir ráð fyrir suðvestan og vestan 18-25 m/s og mjög snörpum vindhviðum á meðan á appelsínugulri viðvörun stendur. Einnig má búast við éljum með lélegu skyggni og versnandi færð. Ekkert ferðaveður.
Sýnu verst virðist veðrið verða undir morgunn hér á Norðurlandi vestra og svo má reikna með öðrum hvelli sólarhring síðar þó útlit sé fyrir að sá fyrri verði verri. Skaplegra og stilltara veðri er spáð um og upp úr miðri viku.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.