Einar K en ekki Ólína með flestar yfirstrikanir
BB segir frá því að Einar K. en ekki Ólína hafi verið með flestar útstrikanir í NVkjördæmi. Nokkuð nákvæmar tölur um útstrikanir nafna á framboðslistum í Norðvestur-kjördæmi liggja nú fyrir. Alrangar upplýsingar voru birtar í helstu fjölmiðlum um helgina og var stuðst við þær í frétt hér á vefnum.
Þar var því haldið fram, að Ólína Þorvarðardóttir hefði fengið flestar útstrikanir, Jón Bjarnason næstflestar og síðan Ásbjörn Óttarsson. Það sem liggur fyrir nú síðdegis, að sögn Ríkarðs Mássonar, formanns yfirkjörstjórnar, er að um 248 strikuðu yfir nafn Einars K. Guðfinnssonar, um 181 yfir nafn Ólínu Þorvarðardóttur, um 158 yfir nafn Jóns Bjarnasonar og um 157 yfir nafn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Í einhverjum tilvikum kunni þó að skakka fáeinum yfirstrikunum til eða frá þegar endanlegri yfirferð er lokið.
Á vef Ríkisútvarpsins síðdegis á sunnudag var eftirfarandi frétt undir fyrirsögninni Talsvert strikað út í NV-kjördæmi: „Tölur um útstrikanir hafa borist úr Norðvesturkjördæmi. Þær breyta þó engu um röð þingmanna. Alls strikuðu 170 yfir nafn Ólínu Þorvarðardóttur, annars manns á lista Samfylkingarinnar. Yfir nafn Jóns Bjarnasonar, oddvita á lista Vinstri grænna, strikuðu 150 og ríflega 90 yfir nafn Ásbjarnar Óttarssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins.“
Á fréttavefnum mbl.is sagði á sunnudagskvöld: „Flestir strikuðu yfir nafn Ólínu Þorvarðardóttur, sem skipaði annað sætið á lista Samfylkingarinnar. Þá voru á annað hundrað útstrikanir yfir nafn Jóns Bjarnasonar, oddvita á lista VG, og tæplega 100 strikuðu yfir nafn Ásbjörns Óttarssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins.“
Ekki liggur fyrir hvers vegna eða hvaðan hinar röngu tölur rötuðu í helstu fjölmiðla. Fyrirsögnin á vef Ríkisútvarpsins er einnig villandi að því leyti, að minnst var um útstrikanir í Norðurkjördæmunum tveimur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.