„Ég gæti líklega ekki lifað án tónlistar“ / LAILA
Um miðjan febrúar svaraði Sigurlaug Sæunn Angantýsdóttir (1958) Tón-lystinni en flestir á Króknum kannast nú sennilega við hana sem Lailu kennara. Það er nokkuð síðan Laila flutti suður á land en hún býr nú í Bæjarholti 3 á Laugarási sem er í Bláskógabyggð, áður Biskupstungnahreppi. „Ég er fædd og uppalin á Sauðárkróki og er yngst barna Angantýs Jónssonar, sem var Svarfdælingur, og Báru Jónsdóttur frá Lambanesi í Fljótum,“ segir hún.
„Ég lærði á píanó í tónlistarskólanum á Króknum þegar ég var stelpa en hef lengstum spilað bara eftir eyranu á píanó og orgel. Við eigum gítar og bassa og ég náði að spila á bassann opinberlega þegar við kennararnir í Reykholtsskóla ákváðum að koma nemendum á óvart og taka lagið á árshátíð skólans. Það var skemmtileg upplifun.“
„Ég tók tvisvar þátt í Danslagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks,“ segir Laila spurð út í helstu tónlistarafrekin. „Þegar ég var níu ára vann ég aukaverðlaun fyrir lag mitt Góðir vinir við texta eftir Margréti Jónsdóttur og var lagið gefið út á plötu með Sextett Jóns Sigurðssonar og Stefáni (hann var söngvari Lúdó – man einhver eftir Sextán rauðar rósir?). Þrettán ára gömul vann ég keppnina með laginu “Ástaróður” við texta eftir móður mína.“
Laila stjórnaði líka skólakórum á Króknum og kenndi ungum kórfélögum meðal annars að syngja milliraddir – sem var metnaðarfullt og skemmtilegt. Þegar Fésbókarsíða hennar er skoðuð er augljóst að hún elskar tónlist.
Hvaða lag varstu að hlusta á? Nú var ég að hlusta á Evu Cassidy flytja lagið “Over the rainbow”.
Uppáhalds tónlistartímabil? Tíminn skiptir nánast engu máli í tónlistarvali mínu svo framarlega að ég heyri tónlist sem höfðar til mín og mér finnst góð. Hugurinn leitar þó aðeins meira til tímabilsins 1970 – 1990.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég gæti líklega ekki lifað án tónlistar, af hvaða toga sem er. Það fer allt eftir dagsforminu hvaða tónlist ég vel hverju sinni og ef hún fyllir mig vellíðan þá er markmiðinu náð.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Hlustað var á tónlistina sem hljómaði á öldum ljósvakans í þá daga og svo fundum við rás Luxemburg og hlustuðum á það heitasta þaðan. Við hlustuðum á alla flóruna, frá Mahaliu Jackson og upp í Queen, svo dæmi séu tekin
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta kasettan var líklega með Bee Gees í kringum 1970 og á svipuðum tíma keypti ég kasettu með Carpenters og Smokie. Fyrsta platan hefur líklega verið með Bítlunum..
Hvaða græjur varstu þá með? Ég átti kasettutæki og fékk mér síðan alvöru græjur frá Pioneer.
Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Það hefur líklega verið What a Beautiful World með Louis Armstrong, ég hlustaði víst sem dáleidd á það lag.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Engin tónlist hefur slík neikvæð áhrif á mig enda er ég rólyndismanneskja eins og allir vita.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Nýjasta spilalistann minn á Spotify.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Hauser (sellóleikari) eða jafnvel Rósina með Sigfúsi frá Álftagerði.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég á miða á tónleika með America og Pentatonix og bíð eftir að Covid-19 renni sitt skeið svo ég fái að njóta tónlistar þeirra og tek þá dæturnar með mér.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Mig minnir að það hafi nú bara verið útvarp í bílnum og þegar gott lag var spilað hækkaði ég vel í tækinu.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Þeldökkir tónlistarmenn hafa alltaf höfðað mikið til mín, til dæmis Stevie Wonder og Whitney Houston. Þá myndi ég gjarnan vilja hafa hæfileika Carlos Santana.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Ég get eiginlega ekki svarað þessu en ég nefni þó Bohemian Rhapsody með Queen.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
If Tomorrow Never Comes /Swiss, Etana
Let´s Love / David Guetta & Sia
Diamonds / Sam Smith
Who´s Crying Now / Journey
Separate Ways / Journey
Broken Wings / Mr. Mister
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.