Dagur 15 í Delhí
Forvitnilegt er að fylgjast með Þuríði í ferð vonarinnar til Delhí en margt hefur á daga hennar drifið síðan hún kom þangað. Nú er komið að færslu hennar á degi 15 en alla söguna er hægt að sjá á Óskasteinn.com.
Við vöknum óvenju snemma eða rétt fyrir átta, hjúkkurnar ætluðu að vera snemma á ferðinni í dag til að taka blóðprufu og þvagprufu til að senda í rannsókn fyrir mánudagssprautuna. Ég þarf líklega að vera í góðu lagi fyrir hana. Í dag er þjóðhátíðardagur Indverja og í dag fer Herdís heim. Árni hellir á könnuna og vandar sig sérstaklega því Herdís ætlar að koma við og fá kaffi áður en hún leggur í hann. Rétt fyrir níu bankar hún, við tölum um allt og ekkert og ég finn hvernig kvíði og söknuður togast á í mér. Þó vissulega sé ég mjög ánægð fyrir hennar hönd að vera að fara heim. Við fylgjum henni niður, þar er starfsfólkið, læknar, ræstingalið, stjórnendur og fleiri eru í óða önn að skreyta biðsalinn með blöðrum í fánalitunum grænn, hvítur og orange. Einn læknirinn er að teikna á töfluna meðan hin hengja upp blöðrur. Leigubíll Herdísar er mættur og komið er að kveðjustund. Við kveðjumst og einhvernveginn er ég tóm, mér finnst ég engan veginn hafa náð að þakka henni fyrir allt saman, en ég veit að hún veit. Við pössum okkur að gera þetta ekki of tilfinningaþrungið, svoleiðis endar bara í tárum. Við Árni förum aftur upp á herbergi, kl. ellefu eigum við að mæta niður aftur í þjóðhátíðarskapi.
Við erum mætt niður þarna eru flestir saman komnir bæði þeir sem eru hér inniliggjandi og sjúklingar utan úr bæ. Kallarnir sem eru alltmúligmenn hér ganga um beina, með gosdrykki í glösum og bjóðandi snakk sem samanstendur af djúpsteiktu horni með kjötfyllingu inn í, stóra sæta kúlu sem inn í er mjög sæt, ég get ekki sagt til um hvað er í þessu en hélt fyrst að þetta væri marsípan svo var ekki og loks eitthvað sem ég kannast við eða heit súkkulaðikaka. Við spjöllum við fólkið og til okkar kemur maður sem við höfðum ekki séð áður. Ég var sannfærð um að hann hlyti að vera faðir stráks sem var nýkomin hingað og er í hjólastól. Hann gefur sig á tal við okkur, spyr um Ísland og hvað við gerðum heima. Hann er svo aldeilis hissa þegar Árni segist vinna með unglinga sem hafi lent í eiturlyfjum og innbrotum. Hann segist allsekki geta tengt Ísland við neitt annað en hreint og ferskt. Ég spyr hann hvað hann geri og þá segist hann hafa búið hér í tuttugu ár og eigi tennisvöll og hafi starfað sem tennisþjálfari hér. Síðustu níu árin hafi hann starfað sem framkvæmdastjóri á hinu sjúkrahúsinu. Við Árni urðum hálfklumsa, tennisþjálfari, framkvæmdastjóri sjúkrahússins. Við vorum meira en lítið hissa. Hann sagðist enn eiga tennisvöllinn og hafa fólk í vinnu þar en einbeitti sér að því að stýra sjúkrahúsinu, svo hló hann og sagðist eiginlega hafa ætlað að koma okkur á óvart á mánudaginn. Ja, hann kom okkur á óvart! Eftir fagnaðinn niðri fórum við aftur upp, það var matur, ég hafði ekki lyst, glápti bara á sjónvarpið og gerði ekkert. Ameríkaninn er komin aftur, sonur hans hafði farið í stóra þriggja daga sprautu í byrjun vikunnar og orðið svo fárveikur af þvagfærasýkingu, og endaði með að vera fluttur á enn annað sjúkrahúsið. Hann var allur að braggast og þeir komnir aftur hér á hjúkrunarheimilið. Ameríkaninn og Árni fóru niður í sal að æfa jóga og skokka. Um kvöldið ákváðum við að skreppa í Grænu götuna og tékka á MacDonalds. Þeir selja bara grænmetisborgara eða kjúklingaborgara, hér er ekkert nautakjöt á boðstólum. Við völdum kjúklingaborgara og franskar, sveimérþá líklega með því besta sem ég hef fengið lengi. Þrátt fyrir að hafa legið nær allan daginn í rúminu, var ég steinsofnuð um kl. níu. Ótrúlegt hvað maður getur sofið.
Á morgun ætlum við að leita uppi eitthvað vestrænt og fara í stórt moll hér í útjaðri Delhí, eitt það stærsta sem borgin hefur upp á að bjóða, það verður gott að komast aðeins út, því þessir veggir hér þrengja ansi mikið að manni, ef maður er ekki duglegur að koma sér út fyrir dyr, hér vantar alveg garð til að fara út í svo gatan verður bara að duga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.