Bókanir vegna byggðakvóta
Á fundi Byggðaráðs Skagafjarðar s.l. föstudag voru málefni byggðakvóta rædd og var tekist á um það hvort rétt hafi verið staðið að málum varðandi útfærslu á reglum til úthlutunar kvótans í samræmi við tilmæli ráðuneytisins?
Þar sem byggðakvóta fyrir Skagafjörð fiskveiðiárið 2007/2008 hefur enn ekki verið úthlutað, töldu fulltrúar VG að flest benti því til þess að byggðakvóti sem ætlaður var í Skagafjörð muni fara forgörðum vegna aðgerðaleysis forsvarsmanna sveitarfélagsins og lögðu þeir því fram fyrirspurn, hvers vegna hefur sveitarfélagið ekki útfært reglur til úthlutunar kvótans í samræmi við tilmæli ráðuneytisins og hvort það væri ætlun sveitarfélagsins að nýta ekki þann byggðakvóta, sem til úthlutunar er fiskveiðiárið 2007/2008.
Formaður byggðaráðs vildi meina að vegna seinagangs í sjávarútvegsráðuneytinu hvað varðar það að auglýsa eftir umsóknum um byggðakvóta og síðan senda frá sér til Fiskistofu væri hluti vandans sérstaklega eftir að breytingar sem gerðar voru á úthlutunarreglum í kjölfar athugasemdir umboðsmanns Alþingis en það fól í sér að úthlutanir kvótans fóru úr höndum sveitarfélanna til ráðuneytisins eða Fiskistofu í þess umboði. Vegna þessarar stöðu kom seint til úthlutunar og runnu nánast saman tvö kvótatímabil, 2006/2007 og 2007/2008.
Einnig hafði áhrif á þessum tíma að lengi lá fiskvinnsla niðri á Hofsósi þannig að bátar gátu ekki lagt upp þar samkvæmt sérákvæði í úthlutunarreglum þar um. Þau mistök urðu líka að það láðist að senda strax svarpóst við pósti ráðuneytisins þar sem tillaga var gerð að nýjum úthlutunarreglum en þau mál hafa verið leiðrétt.
Hvort sveitarfélagið ætlaði sér ekki að nýta þann byggðakvóta, sem til úthlutunar er fiskveiðiárið 2007/2008 vildi formaðurinn meina að sveitarfélög nýta ekki byggðakvóta, þau sækja einungis um kvóta skv. núgildandi lögum og reglum þar um en gera í framhaldinu tillögur um sérákvæði í reglunum sem þau telja að þurfi að gilda um úthlutun á sínu svæði, þ.e. ef talið er að einhver sérákvæði þurfi um úthlutun. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur sótt um byggðakvóta fyrir Hofsós undanfarin kvótaár, m.a. umrætt kvótaár eins og fram hefur komið og eru allar líkur til þess að hægt verði að úthluta byggðakvóta fyrir kvótaárið 2007/2008 til allra þeirra er uppfylla skilyrði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.