BÓK-HALDIÐ | „Stundum þarf maður bara góða sögu og eitthvað til að gleyma sér yfir“

Hildur Knútsdóttir. MYND AÐSEND
Hildur Knútsdóttir. MYND AÐSEND

Að þessu sinni tókst Feyki að plata Hildi Knútsdóttur til að fara yfir Bók-haldið sitt með lesendum. Hún býr í Reykjavík en er ættuð að norðan í bæði móður- og föðurætt, fædd 1984, er gift, með tvö börn og hundinn Ugga.

Hildur er bráðsnjall rithöfundur og hefur verið iðin við kolann síðan fyrsta bók hennar, Sláttur, kom út árið 2011 en hún er margverðlaunuð og hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2016 fyrir bókina Vetrarhörku. Hún er þegar farin að troða marvaðann í jólabókaflóði ársins. „Ég er með ungmennabókina Hrím. Hún fjallar um Jófríði Jórudóttur, sem býr á Íslandi, en ekki Íslandi eins og við þekkj-um það. Það er fullt af risastórum, hættulegum dýrum, og á veturna, þegar snjóar, koma skrímslin niður af hálendinu,“ segir hún. Brrrr...

Á Heimili höfundanna á heimasíðu Forlagsins segir um Hildi: „Hún er fjölhæfur, hug-myndaríkur og afkastamikill höfundur sem skrifar bæði fyrir börn og fullorðna og velur sér sögusvið jöfnum höndum úr hversdeginum og heimi furðusagna – stundum á mörkum beggja þessara heima.“ Þá má geta þess að Hildur er með BA-gráðu í bókmenntum og skapandi skrifum frá Háskóla Íslands.

Hvaða bækur ertu með á náttborðinu? „Síðustu vikur er ég búin að lesa allt sem Rachel Harrison hefur gefið út. Hún er bandarískur höfundur sem skrifar hryllingsbækur og þær fjalla oft um flókin sambönd kvenna. Nýjasta bókin hennar, Black Sheep, kom út í síðustu viku og ég var að byrja á henni. Svo er ég að hlusta á Children of Time bálkinn eftir Adrian Tchai-kovsky.“

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina? „Úff, erfið spurning! En ég held kannski The Time Travellers Wife eftir Audrey Niffenegger, ég hef aldrei grátið jafn mikið yfir neinni bók, hvorki fyrr né síðar. Og svo The Goblin Emperor eftir Katherine Addison. Þetta eru báðar bækur sem ég þori ekki að lesa aftur, af ótta við að þær séu ekki jafn góðar og mig minnir.“

Hvers konar bækur lestu helst? „Ég les helst furðusög-ur, þ.e. hrylling, fantasíur og vísindaskáldskap. En ég les alveg allt hitt líka og er alæta á bækur.“

Heldurðu að hryllingur sé góður fyrir hjartað? „Já!“

Hvaða bækur voru í uppá-haldi hjá þér þegar þú varst barn og varstu snemma byrjuð að lesa sjálf? „Ég man ekki hvenær ég byrjaði að lesa sjálf en það hlýtur að hafa verið snemma. Og þegar ég var lítil elskaði ég Isabel Allende og síðan voru bækurnar um Börn Jarðar, eftir Jean M. Auel, líka í uppáhaldi. Ég held ég hafi kannski verið aðeins of ung þegar ég las þær, sem gildir reyndar um fleiri bækur held ég, en foreldrar mínir skiptu sér sem betur fer aldrei neitt af því hvað ég var að lesa.“

Er einhver ein bók sem hef-ur sérstakt gildi fyrir þig? „Engin! Eða, reyndar á ég nokkrar áritaðar bækur, bæði eftir vini mína og svo aðra höfunda sem ég er hrifin af, og mér þykir auðvitað vænna um þær en aðrar.“

Hvaða rithöfundar eða skáld fá hjartað til að slá örar eða eru í uppáhaldi? „Jane Austin, Marian Keyes, Naomi Novik, T. Kingfisher, Kate Atkinson, Catriona Ward, Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Fríða Ísberg, Þórdís Gísladóttir, Kristín Svava Tómasdóttir og Kristín Eiríksdóttir.“

Aðspurð segist Hildur reikna með að hún kaupi sirka eina bók á viku. „Og já, ég les þær allar!“ Hún segist elska allar bókabúðir og er fasta-gestur á Borgarbókasafninu í Grófinni – það er hennar staður.

Hvaða bók heldurðu að þú hafir lesið oftast eða er einhver bók sem þér finnst þú ættir að lesa árlega? „Ég hef líklega lesið Harry Potter bækurnar oftast. Og það er engin bók sem ég les árlega, ég vil frekar lesa nýjar bækur en að endurlesa gamlar.“

Voru einhverjar teiknimynda-sögur sem þú gleyptir í þig? „Ég hef einhverra hluta vegna aldrei dottið almennilega í teiknimyndasögur.“

Hvaða bækur lastu fyrir börnin þín? „Bara alls konar. Okkur fannst skemmtilegast að fara saman á bókasafnið og velja bækur.“

Hvað þarf að hafa í huga þegar skrifað er fyrir börn eða unglinga? „Fyrst og fremst að bera virðingu fyrir lesandanum og tala ekki niður til þeirra. Og ekki reyna að troða boðskap inn í söguna. Mér finnst svo leiðinleg þessi tilhneiging til þess að tala um að allt sem gert sé fyrir börn og unglinga þurfi að hafa eitt-hvert uppeldisgildi eða kenna þeim eitthvað. Stundum þarf maður bara góða sögu og eitthvað til að gleyma sér yfir og flýja hversdaginn. Börn eiga líka rétt á afþreyingu.“

Hefur þú heimsótt staði sérstaklega vegna þess að þeir tengjast bókum sem þú hefur lesið? „Það er kannski frekar á hinn veginn; ef ég ferðast til borgar þá finnst mér gaman að lesa eitthvað sem gerist þar áður en ég fer og svo heimsækja staðina. Ég hef ekki enn farið í sérstaka pílagríms-ferð en mig langar að fara á sögustaði Jane Austen.“

Hver er eftirminnilegasta bókin sem þú hefur fengið að gjöf? „Bara allar bækurnar sem ég hef fengið í jólagjöf og síðan eytt jólafríinu í að lesa.“

Hvað er bók? „Heill heimur.“

Hvað er best með bóklestri? „Sófi, tebolli, ullarteppi og hundur eða köttur til fóta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir