Boða rannsókn á falli sparisjóða
Sérstök rannsóknarnefnd verður skipuð um aðdraganda og orsök falls íslenska sparisjóðakerfisins, nái þingsályktunartillaga sem Vinstri græn og Hreyfingin standa að fram að ganga. Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Nefndinni er ætlað að kanna hvort fall sparisjóðanna hafi verið vegna mistaka eða vanrækslu við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.
Löng áfallasaga
Í greinargerð með tillögunni segir að nýleg yfirtaka Fjármálaeftirlitsins á BYR – sparisjóði og Sparisjóðs Keflavíkur sé aðeins nýjasta dæmið um langa áfallasögu sparisjóðakerfisins. Sú rannsókn sem hér sé lagt til að verði gerð þurfi að ná að minnsta kosti til ársins 2001 eða aftur fyrir þann tíma þegar lagaumhverfi sparisjóðanna og rekstrarformi þeirra var breytt og vikið frá þeim samfélagssjónarmiðum sem þeir höfðu starfað eftir fram að því.
Sparisjóðir fái að starfa félagslega
Lagt er til að rannsóknarnefndin verði byggð á lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða og að hún skili Alþingi skýrslu um rannsóknina ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar. „Rannsóknin á ekki að einskorðast við aðdraganda hrunsins í október 2008 heldur taka einnig til tímans eftir hrun enda eru áhrif hrunsins enn að koma í ljós hjá sparisjóðum um allt land,“ segir Ásmundur Einar. Enn fremur er nefndinni ætlað að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera sparisjóðum kleift að starfa á þeim félagslegu forsendum sem þeim upphaflega var ætlað að gera.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.