Bjarni og Lilja berjast um 1. sæti VG
Póstkosning vegna forvals Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar 29. október nk. hófst í dag, 12. september, en síðasti dagur til að póstleggja atkvæði er 20. september. Atkvæði verða svo talin í Leifsbúð í Búðardal sunnudaginn 25. september nk. Fjórir bjóða sig fram í fyrsta sætið.
Bjarni Jónsson Sauðárkróki og Lilja Rafney Magnúsdóttir Suðureyri, bjóða sig fram í fyrsta sætið, Lárus Ástmar Hannesson Stykkishólmi í 1.-2. sæti og Rúnar Gíslason Borgarnesi í 1.-3. sæti. Það má vera ljóst að slagurinn um fyrsta sætið stendur á milli Lilju Rafneyjar og Bjarna en þau hafa hvað harðast verið að kynna sig að undanförnu. Hringingar og póstsendingar til félagsmanna kjördæmisins, jafnvel starfsfólk Alþingis komið þar nálægt.
Bjarni Jónsson er duglegur við að senda inn greinar og þeysa um kjördæmið og á Fésbókarsíðu hans sést að hann hefur farið víða. Þegar Feykir talaði við Bjarna í morgun var hann á leið á Snæfellsnesið og segist hvarvetna hafa fengið góðar viðtökur og vill hann hvetja alla til að taka þátt í forvalinu og móta framtíðarforystusveit Vinstri grænna í Norðvesturkjördæminu. Hann segist alla vega reiðubúinn til að takast á við og berjast fyrir fjölbreyttum hagsmunum kjördæmis.
Á heimasíðu VG er að finna kynningarbækling fyrir forvalið og þar stendur að mikilvægt sé að sem flestir félagar taki þátt í forvalinu og hjálpi þannig kjörstjórn að leggja til efnilegan lista tilvonandi þingmanna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.