Birkir Blær gerir það gott í sænska Idolinu :: Elti skagfirskættaða kærustu til Svíþjóðar

Birkir Blær og Rannveig Katrín á góðri stund. Aðsendar myndir.
Birkir Blær og Rannveig Katrín á góðri stund. Aðsendar myndir.

Tónlistarmaðurinn Birkir Blær Óðinsson hefur gert garðinn frægan í Svíþjóð þar sem hann hefur sungið sig inn í átta manna úrslitin í sænsku Idol söngvakeppninni. Birkir sagði frá því á Vísi að hann hefði flutt til Svíþjóðar til þess að elta kærustuna út í nám og það hafi undið fljótlega upp á sig. Feyki barst ábending um Skagafjarðartengingu við téða kærustu, Rannveigu Katrínu Arnarsdóttur, og ákvað að senda línu til að forvitnast nánar um þeirra hagi í Svíþjóð.

-Tenging mín við Skagafjörð er að amma og afi, Jórunn Árnadóttir og Bjarni Maronsson, bjuggu í Ásgeirsbrekku þegar ég var lítil og ég var mikið hjá þeim í sveitinni á sumrin og í fríum. Núna býr afi í Varmahlíð þannig að ég fer reglulega í heimsókn í Skagafjörðinn.

Hvað eruð þið að gera í Svíþjóð?
-Ég bjó í Svíþjóð í tvö ár þegar ég var á grunnskólaaldri og þegar kom að því að fara í háskólanám var ég mjög spennt fyrir því að flytja aftur til Svíþjóðar og er núna á þriðju önn í umhverfisfræði við Gautaborgarháskóla. Pabbi Birkis býr hér í Svíþjóð ásamt fjölskyldu sinni og vildi Birkir gjarnan flytja nær þeim og sá fyrir sér að reyna að vinna að tónlist hér, enda er Svíþjóð mikið tónlistarland.

Hvar búið þið og hvernig er mannlífið?
-Við búum í Gautaborg sem er næststærsta borgin í Svíþjóð og okkur líður mjög vel hérna. Auðvitað hefur Covid haft mikil áhrif á upplifun okkar af mannlífinu hér en fólkið er opið og vinalegt og það hefur reynst okkur auðvelt að kynnast fólki. Það er alltaf eitthvað um að vera og nóg að gera og skoða.

Sungið af upplifun í sænska Idolinu. 

 Hvað geturðu sagt mér um þátttöku Birkis í sænska Idol-inu?
-Birkir hefur verið að gera tónlist undanfarin ár og komið fram við hin ýmsu tilefni, aðallega á Akureyri. Það er draumurinn hans að vinna sem tónlistarmaður í framtíðinni og eftir að við fluttum til Svíþjóðar ætlaði hann að reyna að koma sér sjálfur á framfæri hérna en svo hvatti stjúpsystir hans hann til að sækja um í Idol sem hann gerði. Þessi keppni er mjög stór hér í Svíþjóð og margir sem fylgjast með henni. Birki hefur gengið mjög vel og er núna kominn í átta manna úrslit. Hann hefur fengið mjög jákvæð viðbrögð frá dómurum og almenningi og finnur fyrir miklum meðbyr. Keppnin fer fram alla föstudaga til 10. desember og það dettur einn út í hverri viku. Hann hefur því búið á hóteli í Stokkhólmi undanfarnar vikur og mun vera þar þangað til þátttöku hans lýkur í keppninni.

Hvað er á döfinni hjá ykkur?
-Ég á þrjár annir eftir í skólanum svo planið hjá mér er bara að klára það hérna í Gautaborg. Birkir mun vonandi geta farið að vinna á fullu í tónlist eftir Idol þar sem hann hefur fengið mikla athygli og góð tengsl inn í tónlistarheiminn hérna. Svo sjáum við bara til hvað tekur við.

Áhugasömum er bent á að hægt er að fylgjast með gengi Birkis á Instagram (@birkir.blaer) eða facebook, Birkir Blær, en þar er hann duglegur að setja inn atriðin sín og annað tengt keppninni. Því miður er hvorki hægt að horfa á keppnina né kjósa frá Íslandi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir