Barnasýningar í 30 ár – Leikfélag Sauðárkróks sýnir Emil í Kattholti

Í ár eru 30 ár síðan Leikfélag Sauðárkróks sýndi fyrst barnaleikrit, en í desember árið 1984 setti félagið upp Galdrakarlinn í Oz. Frá árinu 2000 hafa barnasýningar verið á dagskrá hjá félaginu að hausti til.

Á þessu hausti setur félagið upp Emil í Kattholti. Strákhnokkinn Emil er kunnur fyrir uppátæki sín og iðulega sendur í smíðaskemmuna þar sem hann tálgar spýtukall fyrir hvert skammarstrik sem hann gerir. En hann er líka góður og reynir t.d. eftir bestu getu að losa Línu við tannpínuna.

Ævintýri Emils eftir Astrid Lindgren eru kunn og voru fyrst sett á svið á Íslandi árið 1988 af Leikfélagi Hafnarfjarðar. Sama ár setti Leikfélag Sauðárkróks verkið upp og endurtekur nú leikinn 26 árum seinna. Tónlistin í verkinu er eftir Georg Riedel og leikstjóri er Páll Friðriksson.

Með hlutverk Emils og Ídu fara systkini sem eru 9 og 13 ára og leikur raunverulegur pabbi þeirra pabba þeirra í leikritinu, hann Anton en alls koma um 30 manns að sýningunni.

Frumsýnt verður í Bifröst á Sauðárkróki, laugardaginn 11. október kl. 16.00

Sýningartímar:

  • Frumsýning laugardag 11. október kl. 16:00
  • 2. sýning sunnudag 12. október kl. 16:00
  • 3. sýning þriðjudag 14. október kl. 18:30
  • 4. sýning miðvikudag 15. október kl. 18:30
  • 5. sýning föstudag 17. október kl. 18:30
  • 6. sýning laugardag 18. október kl. 16:00
  • 7. sýning sunnudag 19. október kl. 16:00
  • 8. sýning þriðjudag 21. október kl. 18:30 (lokasýning)

Miðasala er í síma 849 9434 og einnig í Bifröst 30 mín. fyrir sýningar.

/fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir