Aukin verðmæti og fjölbreyttari veiðar á makríl
Makríllinn er flökkustofn sem hefur á síðustu árum komið tímabundið í miklu magni inn í íslenska lögusögu. Svo ótrúlegt sem það kann að sýnast hafa ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort hægt sé að stýra veiðum á makríl utan gildandi laga en því fer víðsfjarri.
Gildandi lög kveða á um um stjórn veiða úr deilistofnum sem ekki eru settir í kvóta. Annars vegar er um að ræða ólympískar veiðar, en þá veiða skipin hvert í kapp við annað uns ákveðnu heildarmagni er náð. Hins vegar er um að ræða tímabundna veiðistjórnun.
Veiðistjórn á makríl og nýbreytni
Eftir umfjöllun sem byggði m.a. á skýrslu sem gerð var um nýtingu makríls af Íslandsmiðum og málstofu sem haldin var nýlega, var það mat ráðuneytisins að taka beri upp tímabundna veiðistjórnun á makríl í stað ólympískra veiða undanfarinna ára. Þá er lagt til það nýmæli að hluti aflaheimilda er tekinn frá fyrir önnur skip og fjölbreyttari veiðifæri.
Ólympískar veiðar hafa verið gagnrýndar þó þær geti verið réttlætanlegar til að afla þjóð veiðireynslu og samningsstöðu í flökkustofni gagnvart öðrum þjóðum. Þær eru ekki taldar ábyrgar til lengri tíma vegna innbyggðrar óhagkvæmni sinnar og eru yfirleitt illa séðar af samningsaðilum.
Strandríkin svokölluðu, ESB, Noregur og Færeyjar hafa nú boðið okkur aðild að viðræðum um skipan makrílveiðanna og verður fundur um málið hér í Reykjavík í lok apríl. Víst er að talsvert ber á milli um hlutdeild Íslands. Eitt er þó öruggt að með góðri veiðistjórn styrkjum við samningsstöðu Íslands.
Að mörgu að hyggja
1. Makríllinn er flökkustofn sem komið hefur inn í íslenska lögsögu einkum á síðustu 2-3 árum og dvalið hér miðsumars, aðallega austanlands. Vinnsluhæfni makrílsins til manneldis er síðan takmörkunum háð fyrrihluta sumars vegna þess hve bráðfeitur hann er.
2. Veruleg óvissa fylgir þessum veiðum. Enginn getur fullyrt hvort eða hvenær makríllinn komi í lögsöguna. Sama á við um dreifingu hans kringum landið og hversu lengi hann dvelur hér.
3. Veiðarnar eru enn á þróunarstigi. Útgerðir hafa undafarin tvö ár aflað kostnaðarsamrar reynslu í veiði- og vinnslutækni. Árið 2008 var undir 5% makrílsins unnið til manneldis en á síðasta ári 20%. Vonir standa til a.m.k. tvöföldunar vinnslunnar á þessu ári. Með nýsettum lögum hefur ráðherra heimild til að kveða á um aukna manneldisvinnslu.
4. Veiðireynsla annarra en stóru uppsjávarveiðiskipanna er lítil sem engin. Til þess að þróa fjölbreyttar veiðar á makríl líkt og er í Noregi, verður að skapa rými fyrir veiðar annarra sem stundað geta þessar veiðar á minni skala út frá ströndinni.
5. Veiðarnar gætu hafist innan tveggja mánaða. Tíminn er naumur og óvissan veruleg.
6. Mikilvægt er samningsstöðu okkar vegna að það takist að veiða tiltekið magn á næstu vertíð. Stærstur hluti af þessu magni verður ekki veiddur af öðrum en hinum afkastamikla uppsjávarveiðiflota okkar. Veiði okkar sl. tvö ár hefur verið 112 þús. tonn 2008, 116 þús. tonn 2009 og fyrir árið í ár höfum við einhliða ætlað okkur 130 þús. tonn.
Tímabundin veiðileyfi og framsal óheimilt
Ákvörðun ráðuneytisins um fyrirkomulag makrílveiða á þessu ári felur í sér þrjú meginatriði:
a. Engin varanleg úthlutun aflahlutdeildar. Veitt eru veiðileyfi sem hægt er að fella úr gildi með skömmum fyrirvara.
b. Framsal milli úgerða er óheimilt. Engin fénýting aflaheimilda án veiða getur átt sér stað.
c. Tekin eru frá 3.000 tonn fyrir veiði á króka, net og í gildrur og 15.000 tonn til veiða annarra skipa sem hugsanlega geta veitt makríl.
Hér skal nefnt að nú þegar er lagt á 9,5% veiðigjald sem miðast við framlegð sbr. V. kafla laga um stjórn fiskveiða. Þetta gjald er lagt á makrílveiðarnar líkt og aðrar fiskveiðar. Áætlað er að það skili um 1.300 m.kr. í ár.
Vinnuhópur mun skila tillögum
Ég skipaði sl. sumar vinnuhóp um endurskoðun fiskveiðistefnunnar. Hann hefur það hlutverk að setja fram valkosti um framtíðarfyrikomulag fiskveiðistjórnunarinnar á Íslandi. Einn af þeim valkostum sem hópurinn fjallar um er að taka upp samræmt viðbótar veiðigjald á allar aflahlutdeildir. Meðan vinnuhópurinn er að störfum, í umboði beggja stjórnarflokka og með víðtækri aðkomu ólíkra aðila, verður vart ráðist í viðamiklar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þegar vinnuhópurinn var settur á laggirnar síðasta sumar tiltók ég þó strax að tímabundið yrði gripið til annarra aðferða við veiðistjórn á skötusel. Fyrir þessari ákvörðun voru efnisleg rök og hún var þá gerð öllum kunnug.
Fara verður að gildandi lögum
Hinar róttæku breytingar um skötusel og strandveiðar eru óræk sönnun þess að ég mun beita mér fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og míns flokks.
En hversu brátt sem fólki kann að vera í þessum efnum, verður á hverjum tíma að fara að gildandi lögum. Alþingi fer með löggjafarvaldið í landinu og getur sett ný lög frá grunni um stjórn fiskveiða. Slíkt hefur ekki enn verið gert en að þeim málum er unnið í samræmi við þegar ákveðið vinnulag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.