Árlegt góðgerðarverkefni

Verkefnið „Jól í skókassa“er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Ladies Circle í Skagafirði tekur á móti pökkum fyrir góðgerðarverkefnið „Jól í skókassa“ og í ár verður tekið á móti kössum í Safnaðarheimilinu á Sauðárkróki fimmtudaginn 24. október nk. milli klukkan 18:00 og 20:00. Kassarnir eiga að vera tilbúnir til afhendingar þegar þeim er skilað inn.

Fyrir jólin 2004 ákvað hópur ungs fólks innan KFUM & KFUK að láta reyna á verkefnið hér á landi. Undirtektirnar voru frábærar og söfnuðust rúmlega 500 kassar það árið. Verkefnið hélt svo áfram að spyrjast út og árið 2005 urðu skókassarnir 2600. Sú tala hefur síðan tvöfaldast því undanfarin ár hafa borist í kringum 5000 gjafir. Skókassarnir eru sendir til Úkraínu og í fyrra bárust 4.020 gjafir sem þýðir að það tókst að gleðja 4.020 úkraínsk börn og fjölskyldur þeirra. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Stundum vill

það vefjast fyrir fólki hvað skal setja í kassana, á netinu má nálgast lista yfir hvað má fara og hvað ekki í pakkana. Eins geta þeir sem eiga leið í Skagfirðingabúð á Sauðárkróki fundið borð með tillögum að gjöfum til að setja í kassa. Frágangurinn á kassanum er mikilvægur hluti, finnið tóman skókassa og pakkið inn í jólapappír. Athugið að pakka lokinu sérstaklega inn þannig að hægt sé að opna kassann. Hægt er að nálgast skókassa í skóbúðum og mælt er með að fólk tryggi sér kassa í tæka tíð. Ákveða þarf hvort gjöfin sé ætluð fyrir stelpu eða strák og hvaða aldur gjöfin er ætluð: (3-6), (7-10), (11-14) eða (15-18). Setjið 500-1.000 krónur efst í kassann. Peningurinn er fyrir kostnaði sem fylgir verkefninu. Lokið kassanum með því að setja teygju utan um hann. Einnig er móttaka fyrir gjafir í Hólaneskirkju fyrir Skagaströnd og nágrenni, laugardagurinn 2. nóvember milli 11:00 og 12:00.Nánari upplýsingar um tímasetningar og móttökustaði á landinu öllu má finna á slóðinni https://www.kfum.is/skokassar/

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir