Aftur Flundra í Miklavatni
Ábúendur á bænum Gili í Skagafirði höfðu samband við Náttúrustofu Norðurlands vestra á dögunum vegna óvenjulegs afla sem slæddist með við veiðar í Miklavatni. Þarna er um flundru að ræða, en hún er nýr landnemi á Íslandi og veiðist nú í annað skiptið í Miklavatni eftir því sem best er vitað.
Í október síðastliðnum greindum við frá því að flundra hefði veiðst í fyrsta skipti í Miklavatni. Að þessu sinni reyndist flundran vera 17 cm löng og 7 cm á breiddina og er því af svipaðri stærð og hin fyrri sem veiddist í október.
Á heimasíðu Veiðimálastofnunar ritar Magnús Jóhannsson eftirfarandi fróðleik um flundru:
-Flundra er flatfiskur af kolaætt. Hún líkist mest skarkola (Pleuronectes platessa) og sandkola (Limanda limanda). Hún þekkist þó frá þessum tegundum á því að meðfram bak- og raufarugga og rákinni eru smá beinkörtur. Heimkynni flundru eru með ströndum Evrópu frá Marokkó til Færeyja og allt norður á Kólaskaga. Flundra getur náð allt að 60 cm lengd en er sjaldan lengri en 30 cm. Hún lifir við botn frá fjöruborði niður á um 100 m dýpi, sækir í ísalt vatn en hrygnir ávallt í sjó. Á sumrin heldur flundran sig gjarna í og við árósa og getur gengið upp í ár og læki. Flundra er nýr landnemi á Íslandi, en fyrsta flundran sem greind var hér á landi veiddist í Ölfusárósi í september 1999. Þá höfðu bændur á Hrauni í Ölfusi veitt allnokkra “kola” í net fyrr um sumarið. Í september sama ár veiddust þrír “kolar” á stöng Varmá í Ölfusi. Síðan hefur flundra veiðst mun víðar, bæði í sjó og í árósum, einkum á suður- og vesturlandi og virðist hún hafa náð hér fótfestu. Ekki er þekkt hvernig flundra barst hingað en vitað er að hún hefur borist til Ameríku með ballest í skipi þótt hún hafi ekki náð þar fótfestu. Hrogn og smáseiði flundrunnar eru sviflæg og miðað við útbreiðslusvæði flundrunnar er sennilegast að hún hafi borist hingað frá Færeyjum. Lítið er vitað um búsvæðaval eða lífshætti tegundarinnar hér á landi. Erlendis er þekkt að hún nýtir sér ísalt og ferskvatn að sumarlagi. Talsvert virðist nú um flundru í ósum og sjávarlónum á Suðurlandi og e.t.v. víðar á landinu. Rannsóknir hérlendis hafa sýnt að ósar og ísölt lón eru mjög mikilvæg búsvæði fyrir bleikju og urriða. Þörf er á mun víðtækari rannsóknum til að afla meiri vitneskju um lifnaðarhætti flundru á áósasvæðum íslenskra áa þannig að hægt sé að átta sig á hver áhrif tilkoma flundru í íslenskt vistkerfi eru gegnum afrán og samkeppni. Flundra er nytjafiskur erlendis. Sem dæmi veiddu Danir 4.526 tonn af flundru árið 2004.
Þessu tengt þá var í síðustu viku birt frétt á vefritinu Vísii þar sem fjallað er um útbreiðslu flundru um landið, en stangveiðimenn óttast að hún geti ógnað bleikjustofnum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.