Að hræðast lýðræði

Sindri Sigurgeirsson

Frá lýðveldisstofnun hefur staðið til að endurskoða Stjórnarskránna og gera á henni ýmsar endurbætur. Stoppað hefur verið í og stagbætt í gegnum tíðina en heildarendurskoðun hefur hingað til ekki náð fram að ganga.

Í ársbyrjun 2005 skipaði þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, nefnd til þess að endurskoða Stjórnarskránna. Verkefni hennar var metnaðarfullt og var hún skipuðum fulltrúum allra flokka, ásamt því að hafa sérfræðingateymi sér til halds og trausts.

Fulltrúar flokkanna voru hins vegar fyrst og fremst pólitískir varðhundar þeirra og sátu flestir á þingi. Til nefndarinnar var einnig stofnað skömmu eftir að heiftarleg átök höfðu orðið um túlkun Stjórnarskrárinnar og þá sérstaklega um valdheimildir Forseta Íslands í kjölfar þess að hann hafnaði alræmdum fjölmiðlalögum staðfestingar.

Fór það svo að nefndin, þrátt fyrir að hafa skilað af sér veglegri skýrslu og starfað undir traustri forystu hins mæta Framsóknarþingmanns og fyrrverandi ráðherra, Jóns Kristjánssonar, gat ekki komið sér saman um neinar meiriháttar breytingar á stjórnarskránni. Ein tillaga var sett fram til breytinga er laut að möguleika til framtíðarbreytinga á stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslum, án þess að til þyrfti að koma þingrof og nýjar alþingiskosningar, ef aukin meirihluti fengist til þess á Alþingi.

Má segja að með þeirri nefnd hafi verið fullreynd sú leið að láta starfandi stjórnmálamenn eftir að sinna umskrifum og endurbótum Stjórnarskrár lýðveldisins.

Það er meðal annars þess vegna sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksþingi í janúar síðastliðnum að kjósa ætti til sérstaks stjórnlagaþings. Mikilvægasta grunnskjal íslensks lýðræðis og íslenskrar stjórnskipunnar á ekki skilið að vera sífellt haldið í gíslingu dægurþrass og valdverndar starfandi stjórnmálamanna. Því er það hin lýðræðislega leið, sem að auki er samboðin þeim sérstaka virðingarsessi sem við öll viljum að Stjórnarskráin hafi, að heildarendurskoðun hennar fari fram á sérstöku stjórnlagaþingi.

Það er lýðræðisleg leið og það á ekki að hræðast lýðræðið.

 

 

 

                                      Sindri Sigurgeirsson

              Skipar 3. Sæti Framsóknarflokksins í NV-kjördæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir