Að gefnu tilefni – tekið undir réttmæta ádeilu
Sá ágæti maður Steinar Skarphéðinsson fer nokkrum vel völdum orðum um hækkun fasteignagjalda á Sauðárkróki í aðsendri grein í 8. tbl. Feykis nú nýverið. Ég vil í öllu taka undir málflutning hans, því nýlegar hækkanir fasteignagjalda á Skagaströnd eru að mínu mati hreint og beint óásættanlegar sem slíkar.
Má þar, að minni hyggju, sjá að tengsl forystufólks við almenna borgara geti býsna oft orðið svo lítil að það verði eins og fólk búi á sitt hvorri plánetunni, en ekki á sama stað. Það er bersýnilegt að það fólk sem bauð sig fram til ráðsmennsku á sveitarstjórnarbúinu við síðustu ,,ekki kosningar“ hér á Skagaströnd, ræður ekki við verkefnið og sýnir lítinn skilning og litla tillitssemi gagnvart hag almennings. Fjárhagsgæslan virðist vera með eindæmum léleg.
Hækkun fasteignagjalda bara frá því í fyrra er með ólíkindum og hafði gjaldaliðurinn þó verið þar áður verulega á uppleið. Í þjóðfélagsumræðu síðustu mánuða hafði verið rætt um að sveitarfélög færu hóflega í hækkanir til að leggja sitt til í baráttunni við að ná verðbólgunni niður. Reyndin er hins vegar sú að þar er að öllu öfugt farið.
Stjórnun þessara mála hér á Skagaströnd finnst mér verulega afleit og í raun undirstrika alvarlegan skort á hæfni þeirra sem eiga að sjá um þessi mál. Það er ekki nóg að bjóða sig fram til starfa fyrir almenning, fólk verður að geta sinnt slíkum störfum af skilningi, áhuga og ábyrgð. Þegar ráðsmennskan verður af því tagi sem hún virðist nú vera orðin hér, kemur fram allnokkur skerðing á þeim lífsgæðum sem virtust þó talin til staðar á Skagaströnd fyrir valdatöku núverandi sveitarstjórnar.
Lýsi ég mikilli óánægju minni með það hvernig þar er á málum haldið varðandi óboðlegar yfirgangshækkanir á gjöldum og tel ég þar illa vegið að almannaheill.
Ritað í marsbyrjun 2024.
Rúnar Kristjánsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.