65 brautskráðir frá Hólum um helgina
Föstudaginn 22. maí verður brautskráning í Háskólanum á Hólum og verða brautskráðir samtals um 65. nemendur úr hestafræðideild, ferðamáladeild, fiskeldis- og fiskalíffræðideild.
Nemendur frá Háskólanum á Hólum eru eftirsóttir þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Það hefur sýnt sig og sannað að menntun þeirra stendur vel með þeim. Nálganir og áherslur í náminu ýta undir gagnrýna og skapandi hugsun. Frá Háskólanum á Hólum brautskrást upp til hópa mjög færir einstaklingar.
Nemendur við Háskólann á Hólum eru menntaðir til fjölbreyttra og ólíkra starfa. Hestamennska, ferðaþjónusta og fiskeldi eru þó atvinnugreinar sem eiga það allar sammerkt að vera ört vaxandi og í þeim eru ótal tækifæri sem ekki síst núna er horft sterklega til í uppbyggingu þjóðfélagsins. Í þessum greinum er unnið með verðmætar auðlindir og hjá Háskólanum á Hólum er hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og vandaðra viðskiptahátta lögð til grundvallar nýtingu þeirra.
Það er stór stund þegar við sleppum hendinni af nemendum okkar og horfum á eftir þeim út í þjóðfélagið. Við fylgjumst með þeim og frammistaða þeirra hefur jafnan fyllt okkur sem störfum við Háskólann á Hólum bjartsýni og krafti.
Útskriftarathöfnin fer fram í Þráarhöll og hefst hún kl. 15. Fyrr um daginn verður skeifukeppni hestafræðideildar á skeiðvellinum og hefst hún kl. 12.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.