30% fleiri sækja um í Vinnuskólanum en í fyrra
Miklu fleiri unglingar í 7.-10.bekkjum grunnskólanna í Skagafirði sækja um störf hjá Vinnuskóla Skagafjarðar í sumar en fyrri ár, eða liðlega 130 unglingar.
Allir sem sækja um fá vinnu. Ljóst er að þrengra er á hinum almenna vinnumarkaði en verið hefur og kemur það skýrt fram í þessum tölum. Vinnuskólinn starfar í 10 vikur á sumrin og er 10. bekkingum boðið að vinna í 8 vikur og fá 2 vikur í námskeið ýmisskonar, 9. bekkur fær vinnu í 7 vikur auk námskeiða, 8. bekkur í 5 vikur og námskeið . Allir vinna 6 klukkutíma á dag. Auk þess er 7 bekk boðið að starfa í 2 vikur á sumrin. Námskeiðin eru fjölmörg, t.d. sálræn skyndihjálp, listanámskeið ýmisskonar auk þess sem gera á sérstakt átak í að ná til þeirra sem hafa dottið út úr íþróttum. Framundan er annasamur tími því að Skagfirðingar ætla að halda Unglingalandsmót UMFÍ um verslunarmannahelgina auk þess sem fjölmörg íþróttamót önnur verða hér í sumar. Vinnuskólanum er sérstaklega ætlað að fegra þéttbýliskjarnana, Sauðárkrók, Varmahlíð, Hofsós og Hóla og með slíkan fjölda unglinga að störfum ætti það ekki að vefjast fyrir neinum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.