Vegna stuðningsyfirlýsingar ritstjóra Feykis við frambjóðanda VG

Rúnar Gíslason býður sig fram í 1.-3. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi.
Rúnar Gíslason býður sig fram í 1.-3. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi.

Héraðsfréttablöð eru hverju samfélagi mikilvæg og við í Norðvesturkjördæmi gætum ekki hugsað okkur að vera án blaða eins og Feykis, Skessuhorns og Bæjarins besta, svo dæmi séu tekin. Það er líka gaman að lesa alvöru fréttir um alvöru fólk en ekki einungis þá sem prýða forsíðu glanstímarita. Duglegt og skapandi fólk í héraði fær gjarnan mikið pláss í héraðsfréttablöðum og héraðsfréttablöðin eru öflugur auglýsingamiðill. Ég les öll þessi blöð og hef gaman af.

Það stakk mig hins vegar að lesa „frétt“ sem birtist á feykir.is þann 13. september sl. Titill fréttarinnar er „Bjarni og Lilja berjast um 1. sæti VG“. Það er Páll Friðriksson, nýr ritstjóri Feykis, sem skrifar fréttina. Ég vil hins vegar miklu frekar kalla þessi skrif stuðningsyfirlýsingu við Bjarna Jónsson. Bjarni Jónsson er, eins og flestum lesendum Feykis er kunnugt, frambjóðandi í prófkjör VG í Norðvesturkjördæmi. Þarna eru nokkuð mörg viðurkennd prinsipp í blaðamennsku þverbrotin, að því er virðist, í þeim tilgangi að hampa einum frambjóðanda en um leið að gera lítið úr öðrum!

Í „fréttinni“ er fullyrt að Bjarni Jónsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir hafi hvað harðast gengið fram í að kynna sig og séu þar af leiðandi ein í toppslagnum. Hvergi kemur fram hvaða forsendur voru notaðar til að meta þessa framgöngu þeirra. Með „fréttinni” er síðan birt mynd af Bjarna í Grundafirði af hans eigin fésbókarsíðu en engin er myndin af Lilju, sem er s.kv.t. Feyki hinn frambjóðandinn sem á möguleika á efsta sætinu. Í „fréttinni” eru mistök Lilju við útsendingu tölvupósts rifjuð upp og erfitt að sjá að það sé gert í öðrum tilgangi en að koma höggi á hennar framboð.

Við erum reyndar fjögur sem berjumst um 1. sætið, eða það hélt ég allavega þar til ég las fullyrðingu ritstjórans. Auk Bjarna og Lilju eru það undirritaður og Lárus Ástmar Hannesson sem sækjast eftir forystusætinu.

Í margumræddri frétt er rætt við Bjarna Jónssson en ekki Lilju, hvað þá hina frambjóðendurnar sem að dómi Feykis eru búnir að tapa fyrirfram. Ég vil að það komi skýrt fram að ég tel Bjarna Jónsson afar frambærilegan frambjóðanda og alls góðs maklegan. Ég tel hann meira að segja það góðan frambjóðanda að hann þurfi ekki á forgjöf af þessu tagi að halda. Ég er sjálfur hálfur Skagfirðingur og þykir afar vænt um þann fagra fjörð og dvel þar þegar ég get hjá mínu fólki þar. Þess vegna finnst mér að það góða fólk sem byggir fjörðinn fagra eigi skilið betri vinnubrögð frá því annars ágæta héraðsfréttablaði, Feyki, en sýnd voru í umræddri „frétt”.

Þar sem ég tel að með ummælum sínum hafi ritstjóri Feykis gert frekar lítið úr vinnu minni við framboðið þá vil ég nota þetta tækifæri til að leyfa lesendum að dæma um það sjálfir. Ég er vissulega nýliði í pólitík en hef gert mitt besta. Ég hef skrifað greinar, boðað til opins framboðsfundar (sem mér er reyndar ekki kunngt um að aðrir frambjóðendur í þessu prófkjöri hafi gert). Ég barðist sömuleiðis fyrir því að haldinn yrði sameiginlegur framboðsfundur sem yrði aðgengilegur á vefnum á myndbandsformi. Ég hef tekið upp myndbönd þar sem ég hef kynnt mig og mín stefnumál og nú síðast gekk ég upp á hið 800 metra háa Hafnarfjall með þungan skrifborðsstól á bakinu til að undirstrika það að mér væri full alvara með að sækjast eftir einu af efstu sætunum á listanum! Ef það er ekki að leggja hart að sér við að kynna framboð sitt þá veit ég ekki hvað harka er. Þetta myndband hefur reyndar farið sem eldur í sinu um netheima í dag og verið deilt á fjölmörgum fréttamiðlum, síðast á Feykir.is.

Ég hef farið víða um kjördæmið og hitt fólk enda veit ég fátt skemmtilegra en að umgangast fólk og það er einfaldlega það sem rekur mig áfram. Ég tel hins vegar sjálfsagt að virða einkalíf fólks og reyni því að hafa áreitið hóflegt.

Það getur vel verið að ég eigi eftir að gjalda afhroð í þessu prófkjöri og ég er alveg undir það búinn. Ég vil hins vegar að flokksbundnir félagar í VG á Norðurvesturkjördæmi skeri úr um það en ekki ritstjóri Feykis, með fullri virðingu fyrir honum. Það er rétt að það komi fram hér að ég gerði munnlega athugasemd um það sem hér kemur fram við ritstjórann en þar sem sýndi engan áhuga á að lagfæra umrædda „frétt” þá ákvað ég að koma minni óánægju á framfæri með þessum hætti.

Að lokum þakka ég meðframbjóðendum mínum fyrir heiðarlega baráttu og óska þeim alls hins besta. Sömu óskir hef ég fyrir lesendur Feykis og Feyki sjálfan að sjálfsögðu.

Rúnar Gíslason

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir