Umdæmisþing Rótarý fór fram á Sauðárkróki um helgina
Umdæmisþing Rótarý á Íslandi var haldið á Sauðárkróki um síðustu helgi. Þingið var sett á föstudag og því lauk á laugardagskvöldi. Tvö skagfirsk verkefni fengu hvort um sig 600.000 króna styrki frá hreyfingunni. Það voru um 200 Rótarýfélagar frá rúmlega 30 klúbbum, víðsvegar af landinu, sem sóttu þingið ásamt erlendum gestum.
Þinghaldið fór fram við frábærar aðstæður í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Það er hefð fyrir því að umdæmisþing Rótarý sé haldið á heimasvæði umdæmisstjóra, sem er æðsta embætti Rótary á Íslandi, og þar sem Ómar Bragi Stefánsson gegnir nú því starfi hjá Rótarýhreyfingunni þá var það Rótarýklúbbur Sauðárkróks sem hafði veg og vanda að undirbúningi þingsins og framkvæmd þess.
Rótarýhreyfingin var stofnuð árið 1905 og er í dag ein virtasta og öflugasta góðgerðarhreyfing í heiminum. Rótarýfélagar eru samtals um 1.4 milljónir. Á núverandi starfsári er áætlað að hreyfingin styrki ýmis góð málefni í heiminum fyrir meira en 40 milljarða og þannig hefur hún unnið í áraraðir. Rótarýhreyfingin skiptir miklu máli bæði hér á landi og um heim allan.
Á Íslandi eru 32 Rótarýklúbbar með um 1.200 félaga, konur og karla. Klúbbarnir eru allskonar og funda á mismunandi tímum. Engin mætingaskylda er á fundi en þeir eiga hinsvegar að vera fræðandi og skemmtilegir og sá félagsskapur sem Rótarý er, er ómetanlegur.
Umdæmisþingið hófst eins og áður sagði á föstudeginum með því að Rótarýklúbbur Sauðárkróks bauð til kvöldverðar og skemmtidagskrár sem heppnaðist mjög vel. Formleg dagskrá stóð yfir á laugardag og lauk með heimsóknum þinggesta í ein sjö fyrirtæki og stofnanir á Sauðárkróki, en gestir gátu valið sér eitt fyrirtæki til að heimsækja. Góður rómur var gerður að þeirri breidd sem er í atvinnulífinu í Skagafirði.
Á þinginu voru afhentir tveir styrkir til verkefna í Skagafirði. Það var Margrét Friðriksdóttir formaður verðlauna- og styrktarsjóðsnefndar sem afhenti fulltrúum Kvennakórsins Sóldísir og Vinaliðaverkefni grunnskóla Skagafjarðar kr. 600.000.- hvoru fyrir sig.
Góðu, vinnusömu og skemmtilegu umdæmisþingi lauk með hátíðardagskrá og dansleik þar sem Danssveit Dósa fór á kostum í einu orði sagt.
Í Rótarý er gott að vera og þau gildi sem hreyfingin leggur áherslu á, þjónusta ofar eigin hag, eru afar mikilvæg. Rótarýhreyfingin vill láta gott af sér leiða en á þessu starfsári segjum við Veitum veröldinni von og viljum gera okkar besta til að svo verði. Við munum einnig leggja áherslu á geðheilbrigðismál og ræða þau mál innan klúbba sem utan.
Ef þú hefur áhuga að kynnast Rótarý þá ertu velkomin/n á fund hjá okkur án nokkurra skuldbindinga. Endilega hafðu samband við okkur og við munum taka vel á móti þér.
- - - - - -
Frá Rótarýklúbbi Sauðárkróks
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.