Starfsfólk Byggðasafns Skagafjarðar tók á móti 69 þúsund gestum
Nú er öðru viðburðaríku og annasömu sumri lokið hjá Byggðasafni Skagfirðinga. Frá og með 21. október lauk formlegum opnunartímasafnsins en verður það áfram opið eftir samkomulagi í vetur. Nú skiptir starfsfólk safnsins um gír og fer að huga að haustverkum, faglegu innra starfi og láta sig hlakka til að standa fyrir skemmtilegum viðburðum fyrir nærsamfélagið.
Það er óhætt að segja að það hafi verið í nógu að snúast í sumar en það sem af er ári hafa alls 68.885 gestir heimsótt Glaumbæ og Víðimýrarkirkju, þar af 62.558 í Glaumbæ og 6.327 á Víðimýri. Það er því annað metár í gestafjölda, en í fyrra komu 63.167 gestir og 37.842 árið á undan, en þá setti heimsfaraldur Covid19 strik í reikninginn. Við teljum helstu skýringuna á þessari miklu aukningu vera að sumarið 2021 var safnsvæðinu lokað og nýtt miðasöluhús tekið í notkun og þarf því nú að kaupa miða til að ganga um grundir safnsins. Þetta hefur gefið góða raun en með þessu er verið að reyna að hlúa meira að gamla bænum og umhverfi hans með því að stýra betur umferð fólks á svæðinu ásamt því að bæta safnaupplifun gesta. Þá hefur lokun safnsvæðisins jákvæð áhrif á miðasölu.
Við minnum íbúa sveitarfélagsins Skagafjarðar á að þeir þurfa einungis að fjárfesta einu sinni í miða árlega, þar sem miðinn gildir í heilt ár frá kaupum, og íbúarnir á svæðinu geta þannig komið í kjölfarið eins oft og þá lystir á sýningar, viðburði og kaffistofu safnsins.
Safnið hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum í ár. Blásið var til 75 ára afmælishátíðar þann 29. maí síðastliðinn, líkt og greint hefur verið frá í Feyki áður. Þá var sannarlega fjör á svæðinu þegar um 700 manns heimsóttu Glaumbæ og fögnuðu tímamótunum með okkur. Þar af voru 64 sem tóku þátt með beinum hætti til að gera daginn sem eftirminnilegastan fyrir afmælisgesti; Margrét Ingvarsdóttir frá Ytra-Mælifelli, Pilsaþytur í Skagafirði, Skagfirski Kammerkórinn, Dansfélagið Vefarinn, Fornverk, Kvæðamannafélagið Gná, Syðra-Skörðugil, eldsmiðirnir Björn J. Sighvatz, Guðmundur Stefán Sigurðarson og Jón Egill Indriðason, Lýtingsstaðir og fleiri eigendur íslenskra hunda í Skagafirði, Smáframleiðendur í Skagafirði; Birkihlíð Kjötvinnsla, Breiðargerði, Ísponica og Rúnalist. Við þökkum öllum þeim sem komu í Glaumbæ og glöddust með okkur þennan dag og lögðu sitt á vogarskálarnar til að gera daginn sem eftirminnilegastan.
Eins og alltaf voru þær glæsilegar til fara
Fyrir hátíðina voru settar upp þrjár nýjar sýningar; í Áshúsi stóð afmælissýningin „Byggðasafn Skagfirðinga í 75 ár“ til 20. október, í Gilsstofu eru
sýningarnar „Saga Gilsstofunnar“ og „Briemsstofa“ og „Hér stóð bær – Skráning Byggðasafnsins á skagfirskum torfhúsum“.
Í Áshúsi var boðið upp á 17 sortir af bakkelsi þann 17. júní og frír aðgangur á safnið fyrir þau sem mættu í íslenskum þjóðbúningi. Venju samkvæmt litu Pilsaþytskonur í heimsókn á Kvenréttindadaginn 19. júní. Eins og alltaf voru þær glæsilegar til fara og vöktu mikla athygli og aðdáun safngesta. Þann 15. júlí var haldið upp á 20 ára afmæli fornleifadeildar safnsins. Í tilefni þess var opinn dagur í Kotinu á Hegranesi þar sem rannsókn á fornbýli fer fram á vegum bandarískra fornleifafræðinga og fornleifadeild safnsins er þátttakandi að. Þá lagði fjöldi manns leið sína á uppgraftarsvæðið þrátt fyrir óblítt veðurfar. Þann 18. júlí var haldið upp á afmæli Mark Watsons, sem jafnan hefur verið nefndur bjargvættur Glaumbæjar og íslenska fjárhundakynsins. Þá mættu íslenskir fjárhundar og eigendur þeirra á safnið og einnig gæðingar frá SyðraSkörðugili og var börnum boðið á bak.
Fornverkaskólinn stóð fyrir tveimur námskeiðum í torfhleðslu í byrjun september, annars vegar á Tyrfingsstöðum á Kjálka og hins vegar á SyðstuGrund í Blönduhlíð. Þátttakendur á námskeiðum voru frá Íslandi og Noregi. Í tilefni þess stóð Byggðasafnið fyrir alþjóðlegu málþingi sem bar heitið „Torfarfurinn – Varðveisla byggingarhandverks“ í Kakalaskála þann 4. september. Viðtökur fóru fram úr björtustu vonum og var fullt hús gesta sem dreif víðs vegar að. Málþingið var tekið upp og verður birt á heimasíðu safnsins, www.glaumbaer.is, á næstu dögum.
Ýmist skuggalegt eða hátíðlegt um að litast í Glaumbæ á næstunni
Það helsta sem er á döfinni er árleg Hrekkjavaka í Glaumbæ, laugardaginn 28. október næstkomandi kl. 18-21. Þá verður alveg hryllilega gaman! Hvetjum við fjölskyldufólk til að líta við á milli þess sem það gengur á milli húsa á Króknum og safnar gotteríi. Sýningarnar í gamla bænum taka á sig skuggalega mynd og Miklabæjar-Sólveig og fleiri fara á stjá, í baðstofunni verða sagðar draugasögur. Í Áshúsi verður smá vinnustofa fyrir yngri kynslóðina þar sem hægt verður að skera út grasker og rófur og ýmist föndur. Einnig verður mögulegt að kaupa léttar veitingar. Börn 12 ára og yngri skulu vera í fylgd með fullorðnum og það gæti verið betra fyrir viðkvæmar sálir á öllum aldri að hafa fylgdarfólk sér til halds og trausts. Aðgangur er ókeypis fyrir börn undir 18 ára aldri og grímuklædda fullorðna.
Þann 3. desember verður aðventuhátíð í Glaumbæ, frá kl. 14-16. Þá verður útgáfu bókarinnar „Vetrardagur í Glaumbæ“ fagnað með útgáfuhófi og myndlistarsýningu. Bókin er framhald sögunnar „Sumardagur í Glaumbæ“ og er samstarfsverkefni Berglindar Þorsteinsdóttur safnstjóra og Jérémy Pailler listamanns. Þá verður heilmikið um að vera í gamla bænum, Pilsaþytskonur og þjóðháttahópurinn Handraðinn ætla að vera með tóvinnu og kveðskap, farið verður í kertagerð, skreytt jólatré og laufabrauð svo dæmi sé tekið. Þá stefnum við á árlega Rökkurgöngu þann 10. desember frá kl. 15-17. Það verður því aldeilis hátíðlegt um að litast í Glaumbæ á aðventunni.
Við þökkum öllum safngestum og stuðningsfólki safnsins fyrir sumarið og hlökkum til að taka á móti ykkur á Hrekkjavöku og á aðventu!
Berglind Þorsteinsdóttir safnstjóri hjá Byggðasafni Skagfirðingar skrifaði pistilinn sem birtur var í Fréttablaðinu Feyki í vikunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.