Kagaðarhóll á Ásum - Torskilin bæjarnöfn
Elzta heimildarskjal um nafnið er ráðsmannsreikningur Hólastóls 1388 og tvívegis í brjefiuu er nafnið á eina leið: Kagadarholl (DI. III. 412 og 546). Í Holtastaðabrjefi (DI. III. 622, sjá, og DI, X. l7) 1397, er stafsett þannig: Kagara- en óhætt má staðhæfa það, að þetta sé misritun fyrir Kagaðar- því þessi breyting finst hvergi annarsstaðar, en, Kagaðar- allvíða (DI. V. 349, IX. 489 og 766) og alt til ársins 1536. Leikur því naumast vafi á því, að Kagaðar- sje óbrenglað nafn, enda þannig ritað í flestum Jarðabókum.
Geta skal þess, að framb. myndin Kagarhóll er algeng nú, og er það latmæli fyrir Kagaðar-. Samnefni finnast aðeins þessi: Kagaðarvík á Ströndum finst um 1286 (DI. II. 261) og Kagaðarhóll, landamerki í Víðidalstungubrjefi, er þekkist frá svipuðum tíma (DI, III. 540, 594. Í DI. V. bls. 349 er misritunin: Kagaðarhólmur). Nafnið virðist annaðhvort vera auknefni - Kagaður - þótt það ekki þekkist annarsstaðar – eða leitt af sögn. kaga- = horfa, sjá; sbr. „Kaga upp á himinn“ (Homolinbók bls. 125) nýn. Kage = svipast um, Fær. kaga og kag = (illt) augnaráð („illt auga“ sbr. þjóðtrú í Noregi um álfafólk) (A. Torp. Nyn. Etyml. Ordb. bls. 254). Danska orðið kige er og rótskylt kaga og af því dönskubjögunin „kíkja“, „kikka“. Ef nafnið væri leitt at kaga þýddi það sjónarhól, og á það að vísu vel við Kagaðarhól á Ásum, því bærinn stendur á mjög stórum og háum hól og er þaðan afar víðsýnt.
Ætti því hóllinn að hafa heitið nafninu á undan bænum. Þessi tilgáta styðst einnig við örnefnið Kagaðarhól í Víðidal, sem áður er getið. Aftur á móti virðist Kagaðarvík fremur dregið af auknefni - kagaður - sbr. nöfn eins og glömmuður - Grímur glömmuður - Rönguðr - Rangaðarvarða. Hannes Þorsteinsson, skjalavörður álítur að bæjarnafnið þýði sjónarhól, og styður það þá áðurgreinda tilgátu, þótt ekki verði fullsannað (Árb. Fornl.fjel. 1923).
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar
Áður birst í 16. tbl. Feykis 2023
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.