Er kristinfræði úrelt? | Ólafur Hallgrímsson skrifar
Kristinfræði er ekki lengur á námsskrá grunnskólans. Undirritaður kenndi boblíusögur í grunnskóla um árabil, 2-3 stundir á viku hverri, en þá var kristinfræðin ein af höfuðnámsgreinum skólans. Síðan var kristinfræðikennslu hætt að boði fræðsluyfirvalda en greinin sett undir samfélagsfræði. Í aðalnámskrá grunnskóla var í staðinn gert ráð fyrir einhverri fræðslu um helstu trúarbrögð heims, og þar með talinni kristinni trú, en skólum líklega nokkuð í sjálfsvald sett hvernig þeir höguðu slíkri fræðslu. Oft önnuðust prestar kennslu í kristnum fræðum.
Afleiðingin er sú að nú koma börn í fermingarundirbúningstímaí 8. bekk illa undirbúin og án þess að þekkja hinn sögulega Jesú, líf hans og starf. Þetta þekkja víst flestir prestar.
Á sama tíma lokuðu skólar, a.m.k. á Reykja-víkursvæðinu, fyrir heim-sóknir presta í leik- og grunnskóla borgarinnar, t.d. í aðdraganda jóla, á þeim forsendum að að ekki mætti mismuna börnum annarar trúar. En sem kristin þjóð hljótum við þó að þurfa að þekkja okkar eigin trúargrundvöll til að skilja trú annarra, vita hvar við stöndum sjálf.
En hvar stöndum við, er þekk-ingunni að hraka? Um þessi mál heyrist lítið rætt og fátt heyrist frá Þjóðkirkjunni.
Nú er mikið rætt í fjölmiðlum um vandamál unga fólksins eftir þá skelfilegu atburði sem nýlega afstaðnir eru. Fjöldi barna og ungmenna virðist glíma við sálræn vandamál, kvíða og þunglyndi, sem birtist sem andleg veikindi, vímuefnaneysla og ofbeldis-full hegðun. Hvernig má það vera að svo sé komið að fjöldi barna á grunnskólaaldri telji sig þurfa að ganga með hnífa til að tryggja öryggi sitt? Samfélagið er slegið óhug. Hvað er að gerast í þjóðlífinu?
Þjóðfélagið er vissulega að breytast, það fer ekki framhjá neinum, en í hvaða átt? Hraðinn fer vaxandi og áreitið, sem ekki hvað síst bitnar á börnum. Áhrif hins mikla skjátíma eru augljós, þar eru börnin að fást við ýmislegt sem þau ráða illa við en getur valdið þeim ótta og öryggisleysi. En þetta er stafræna tæknin, við hana verðum við að búa en við hljótum líka að geta stýrt henni.
Uppeldið byrjar heima, foreldrar leggja línurnar og bera ábyrgðina en skólinn spilar líka stóra rullu. Kann ekki að vera að skólinn þurfi að hlúa meir að sálarlífinu, því sem snertir tilfinningalífiðog mjúku gildin. Veit ég þó að margir kennarar gera þar góða hluti. En hér þurfa allir að taka höndum saman, foreldrar, skólinn og samfélagið.
Heimur barnsins er flóknari í dag en áður fyrr og margt sem veldur öryggisleysi. Börn þarfnast öryggis og góðra áhrifavalda.
Í biblíusögunum af Jesú frá Nasaret, barnavininum mesta, gefst tækifæri til að ræða flest það er barnshugurinn glímir við, þar geta börnin eignast þá fyrirmynd sem þau geta leitað til síðar er erfiðleika ber að höndum.
Höfum við efni á að halda þeirri blessun frá uppvaxandi kynslóð, hefur eitthvert barn haft slæmt af því að heyra sagt frá Jesú, hvaða trú sem það er fætt inn í? Því verða menn að svara. En þá verða börnin líka að þekkja hann, vita hver hann var og hvað hann kenndi – læra um hann.
Væri ekki ráð að gefa kristinfræð-inni aftur séns í „nýju mennta-stefnunni“? Það er að minnsta kosti umhugsunarefni.
Ólafur Hallgrímsson
höfundur er fyrrverandi sóknarprestur og kennari
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.