Vel heppnaður kynningarviðburður fyrir frumkvöðla og fyrirtæki
Miðvikudaginn 23. október stóðu Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) fyrir kynningarviðburði á stefnumótunaraðferð fyrir frumkvöðla og fyrirtæki á Gránu, Sauðárkróki. Viðburðurinn var vel sóttur og tókst einstaklega vel, þar sem þátttakendur fengu innsýn í nýjar aðferðir sem miða að því að styðja lítil og meðalstór fyrirtæki í sjálfbærniaðgerðum og ákvarðanatöku.
Verkefnið Target Circular byggir á nýlegum rannsóknum um hvernig vísindaleg nálgun í ákvarðanatöku getur aukið sjálfbærni og rekstrarhagkvæmni fyrirtækja. Verkefnið hefur að undanförnu verið prófað í samvinnu við fimm frumkvöðla og fyrirtæki á Norðurlandi vestra, sem hafa nýtt sér aðferðirnar með góðum árangri. Þátttakendur á viðburðinum fengu tækifæri til að heyra þeirra reynslu og hvernig þessar nýju aðferðir hafa haft jákvæð áhrif á þeirra verkefni.
Íslensku þátttakendurnir voru Vala hjá Kaffi Korg, Elínborg hjá Breiðargerði, María með ræktun Burnirótar, Herdís með Kayakar.is og Amber hjá Ísponica.
Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, verkefnastjóri Target Circular fyrir hönd SSNV, sagði að verkefnið hafi það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum ákvarðanatöku með því að veita skipulag við öflun upplýsinga og skilvirkari nálgun við ákvarðanatöku. „Með því að nýta gögn og tillögur að aðgerðum hjálpum við fyrirtækjum að taka upplýstari ákvarðanir, sem stuðla bæði að aukinni hagkvæmni og sjálfbærni,“ sagði Sveinbjörg í samtali á viðburðinum.
Einnig kynnti Stephen Barry Hannon frá Munster Technology University á Írlandi áhrifarík verkfæri sem nýtast við innleiðingu hringrásarhagkerfis, sem hafa reynst fyrirtækjum bæði á Írlandi vel. Að lokum var sérstök þjálfun fyrir viðskiptaráðgjafa haldin af Niall O'Leary frá MTU, þar sem áhersla var lögð á að kenna aðferðafræðina, sem verkefnið vinnur að því að þróa, sem hjálpar ráðgjöfum að styðja betur við viðskiptavini sína.
Verkefnið Target Circular er alþjóðlegt samstarfsverkefni sem er fjármagnað að hluta til af Interreg Northern Periphery and Arctic. Samstarfsaðilar eru Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Munster Technology University á Írlandi, Centria University of Applied Sciences og Kokkolanseudun Kehitys í Finnlandi, ásamt Norinnova í Noregi.
Verkefnið er fjármagnað af Interreg Northern Periphery and Arctic programme.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.