Þrettándinn er í dag :: Ráðlagt að hlusta ekki á tal kúa

Samkvæmt þjóðtrúnni tala kýr mannamál á þrettándanum. Mynd: Vísindavefurinn.
Samkvæmt þjóðtrúnni tala kýr mannamál á þrettándanum. Mynd: Vísindavefurinn.

Í dag 6. janúar er þrettándinn en nafn dagsins er stytting úr þrettándi dagur jóla. Í bók Árna Björnssonar Saga daganna, kemur fram að dagurinn var áður talinn fæðingardagur Jesú á undan 25. desember. „En þegar sú tign var af honum tekin, hlaut hann í staðinn virðingarheitið epiphania, sem merkir opinberun, og var þá svo látið heita, að Kristur hefði á þeim degi opinberast með þreföldum hætti hér á jörðu: tilbeiðslu vitringanna, skírninni í Jórdan og brúðkaupinu í Kana.

Þrettándanóttin hefur líka átt sér heitið draumnóttin mikla, segir Árni, því þá átti Austurvegskonunga að hafa dreymt fyrir fæðingu Jesú. „Þá hefur það sannanlega verið til sumstaðar á landinu a.m.k. að kalla þrettándann gömlu jólin eða jólanóttina gömlu. Ekki er ljóst, hvort þarna liggja að baki einhver munnmæli um, að hann hefði verið jóladagur á undan

25. desember, en það mætti furðulegt heita. Hitt kann vera, að þegar allt tímatalið færðist til um 11 daga við breytinguna úr gamla í náyja stíl árið 1700, þá hafi sumt fólk átt bágt með að botna í þeirri röskun og þrettándinn fengið þetta nafn, þótt þar skakki 1-2 dögum, sem er heldur lítilvægt, þegar menn hafa ekki dagatal hangandi uppi á vegg hjá sér.“ 

Þar sem þrettándinn var síðasti dagur jólanna, segir Árni að að oftast hafi verið nokkuð um dýrðir á honum, vel haldið til í mat og drykk og mikið spilað og var það stundum kallað að rota jólin.

Á Wikipedia kemur fram að fram til ársins 1770 hafi hvílt á þrettándanum helgi og var hann almennur frídagur en það ár var hann afhelgaður, sem og þriðji í jólum, þriðji í páskum og þriðji í hvítasunnu, sem einnig höfðu verið helgi- og frídagar, þar sem konungi fannst íslensk alþýða hafa of mikið af almennum frídögum. Við það minnkaði mikið allt tilstand á þessum degi.

Á Vísindavefnum segir að samkvæmt þjóðtrúnni tali kýr mannamál á þrettándanum en um þjóðtrú tengda þrettándanum gildi flest hið sama og um nýársnótt, meðal annars að selir fari úr hömum sínum, kirkjugarðar rísa, álfar flytjast búferlum og kýr tala mannamál. Hættulegt gat verið að hlusta á tal kúnna því þær reyndu að æra þá sem það gerðu, segir á visindavefur.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir