Það er best að kótiletturnar séu af húnvetnskum hryggjum
„28 september heldur Frjálsa kótilettufélagið í Austur-Húnavatnssýslu upp á 10 ára starfsafmæli en á þessum 10 árum höfum við haldið 45 kótilettukvöld, flest í Eyvindastofu hjá B&S, en þetta verður í fimmta skipti sem við verðum í félagsheimilinu og í öll skiptin verið húsfyllir,“ sagði Valdimar Guðmannsson, Valli Húnabyggð, þegar Feykir hafði samband og spurði hvað væri eiginlega að gerast á Blönduósi laugardaginn 28. september.
Valli segir það losa um 4000 manns sem hafa komið á þessi kvöld og þann 28. mun kótiletta númer 13.000 koma á diskinn hjá einhverjum gesta – ef rétt hefur verið talið. Veislustjóri verður Magnús Sigurðsson frá Hnjúki. Þeir sem koma með hljóðfæri og sjá um fjöldasöng og fleira eru Benedikt Blöndal, Skarphéðinn Einarsson. Stefán Ólafsson, Þórir Haraldsson og Björn Blöndal.
Hvernig starfar Kótilettufélagið? „Kótilettufélagið er með fimm kótilettukvöld á ári. Fyrsta laugardag í mars koma Hurðarbaksbræður og spila undir söng og stundum dansi líka og þá er Bjarki Benediktsson veislustjóri. Svo síðasta laugardag í apríl kemur Sigurður Úlvarsson með gítarinn og sér um fjöldasöng með góðri aðstoð bræðranna frá Hjarðartungu sem sjá um veislustjórn og fleira. Næsta kótilettukvöld er svo á laugardaskvöldi á Húnavöku, ekki hefur tekist að gera fastráðningasamninga fyrir þetta kvöld við veislustjóra og hljóðfæraleikara. Svo kemur haustið og þá byrjar þetta síðasta laugardag í september en þá koma þeir Benedikt Blöndal Lárusson og Þórir Haraldsson með hljóðfærin og sjá um fjöldasönginn og hefur Benni stundum tekið veislustjórnina með og gefist vel. Fyrsta laugardag í nóvember er svo síðasta kótilettukvöld ársins. Þar hefur Heiða Haraldsdóttir verið veislustjór sl. tvö ár og þá mætir Sævar Björgvinsson með gítarin ásamt Ásmundi Einarssyni og fleirum.“
Valli segir að starfið hjá sér snúíst um að halda utan um þessa hluti; safna þátttakendum, taka á móti forföllum og halda uppi góðu samstarfi við vin sinn, Björn Þór hjá veitingastaðnum B&S á Blönduósi. „Til að halda svona gangandi er slíkur maður alveg ómissandi og hefur okkar samstarf gengið mjög vel,“ segir Valli.
Safnað fyrir kirkjugarðinn á Blönduósi
Hann segir að starf Frjálsa kótilettufélagsins snúist fyrst og fremst um kótilettur. Hann segist hafa reiknað með því þegar haldið var upp á fimm ára afmæli félagsins að það yrði í eina skiptið sem slíkt yrði gert. En nú er haldið upp á tíu ára afmælið. „Núna gerum við þetta að fjáröflun fyrir kirkjugarðinn á Blönduósi vegna framkvæmda. Það hefur mælst mjög vel fyrir og allir tilbúnir að taka þátt.“
Er algjört skilyrði að kótiletturnar sé af húnvetnskum stofni – eru þær betri húnvetnskar? „Það er best að kótiletturnar séu af húnvetnskum hryggjum en ég læt duga að lömbánum sé slátrað hjá SAH Afurðum á Blönduósi og þar séu þessir E3+ hryggir, sem við notum, sagaðir í réttri þykkt, 3,3 cm. Þess vegna ríkir mikil óvissa hvað tekur við á nýju ári,“ segir Valli og vísar þá í nýleg kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði-Norðlenska sem á SAH afurðir.“
Þegar Feykir kíkti á Facebook-síðu Valla þá voru félagar í hinu Frjálsa kótilettufélagi orðnir 843. Hvernig gerast menn félagar? „Félagið var stofnað í Eyvindarstofu 26. september 2014 af 25 stofnfélögum. Í framhaldinu opnaði ég Kótilettusíðu á Facebook og bauð fyrst í stað öllum sem komu að gerast félagar á þessari síðu. Þarna inn set ég mest af efninu þótt ég setji efnið líka stundum á mína síðu svofleiri sjái.“
Allir þeir sem hafa komið á kótilettukvöld í Eyvindarstofu hafa skrifað nafn sitt á þar til gert mætingablað og þegar allt er lagt saman eru félagar á síðunni ornir 844. „Það bættist einn við í dag!“ segir Valli og bætir við. „Engar skyldur og ekkert félagsgjald – enda vinnur þessi félagsskapur efti ungmannafélagsandanum, allt í sjálfboðavinnu, bara gleði og gaman. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum sem hafa gert þetta mögulegt síðastliðin tíu ár með þetta góða hugarfar.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.