Snati smaladróni snýr á féð
Hjónin Högni Elfar Gylfason og Monika Björk Hjálmarsdóttir eru sauðfjárbændur á Korná í Lýtingsstaðahreppi hinum forna í Skagafirði. Hjá þeim býr Birna Hjördís Jóhannesdóttir móðir Bjarkar. Björk er búfræðingur frá Hólaskóla, en Högni er vélfræðingur og vélvirkjameistari frá VMA og Vélskóla Íslands. Þau búa með vel á fjórða hundrað fjár ásamt fáeinum merum og reiðhestum. Högni grípur í fjölbreytileg verkefni utan bús þegar tími gefst og þá aðallega fyrir bændur í Skagafirði, en Björk sér um bústörfin á meðan.
Hvernig gengur í sveitinni? - Það má segja að hlutirnir hafi gengið nokkuð þokkalega fyrir sig undanfarin misseri. Vorið og sumarið voru reyndar ekki samkvæmt óskum. Vorhret og endalausar rigningar í sumar reyndu á þolinmæðina, en því miður stjórnum við ekki veðrinu þrátt fyrir fullyrðingar sumra þar um.
Er eitthvað búið að verið að byggja eða breyta eða laga undanfarið eða undanfarin ár eða eitthvað á dagskránni í þeim efnum? - Eitthvað fór nú lítið fyrir framkvæmdum hér heima þetta sumarið, en rigningardagarnir voru mest notaðir í verk fyrir aðra. Þó höfum við tekið okkur eitt og annað fyrir hendur undanfarin ár, en þar á meðal reistum við vélaskemmu, fjárhús, byggðum við íbúðarhúsið ásamt því að gera meiriháttar breytingar og lagfæringar innanhúss. Draumurinn hefur svo verið að rífa gamla bílskúrinn og byggja annan betri í staðinn, en ætli það verði ekki að bíða betri tíðar með blóm í haga og verðbólgu ásamt vaxtastigi eins og gerist og gengur hjá siðmenntuðum þjóðum.
Hvernig gekk heyskapurinn? - Hér um slóðir var frost í jörðu fram á mitt sumar. Það ásamt mikilli bleytutíð seinkaði áburðargjöf, jarðvinnslu, sáningu og heyskap. Seinni slætti lauk síðla í septembermánuði sem er nýtt met hjá okkur. Sprettan var æði misjöfn eftir túnum og má fullyrða að áburður varð til lítils gagns þar sem nýlega var búið að bera á fyrir vorhretið mikla. Í heildina eru minni hey, en hjá okkur sleppur það til. Þó verður ekki gaman að gefa það hey sem lítið var hægt að þurrka.
Haustið er yfirleitt annasamt, hvernig hefur haustið verið? - Það lofaði góðu þangað til snjóaði til fjalla, en þá var ekki búið að smala öll svæði. Það má segja að undanfarnar vikur hafi fáir dagar verið án fjárrags og/eða smalamennsku. Þá hefur Snati smaladróni gert sitt besta við að aðstoða gangandi og ríðandi smala í óteljandi fjallaferðum.
Eru þið dugleg að fá afleysingu og taka frí? - Hmmm... meðaltalið í þeim geira er um það bil einu sinni á fjögurra ára fresti. Þó væri óneitanlega gaman að gera svolítið meira af því.
Eru þið bjartsýn/n á framhaldið? -Já, nú hillir loks undir betri tíð með blóm í haga og ástæða er til að brosa breitt. Þar munar mestu um að stutt er í alþingiskosningar og því hægt að leyfa sér að vona að næsta ríkisstjórn muni vinna að eflingu íslensks landbúnaðar fremur en að ganga milli bols og höfuðs á honum með endalausum boðum, bönnum, skattahækkunum og ósanngjarnri samkeppni við innflutning líkt og verið hefur undanfarin sjö ár.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.