Metfjöldi nemenda í sögu skólans

Þorkell V. Þorsteinsson.MYND GG
Þorkell V. Þorsteinsson.MYND GG

Á þessari haustönn hófu 800 nemendur nám við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra að fjarnemum meðtöldum og er þetta metfjöldi í sögu skólans. Skólinn býður upp á afar fjölbreytt nám bæði bóklegt og verklegt. Boðið er upp á fimm námsbrautir til stúdentsprófs, sex iðnnámsbrautir og sex starfsnámsbrautir auk starfsbrautar. Það nýjasta í þessum efnum er nám í bifvélavirkjun, rafveituvirkjun og kvikmyndagerð. Feykir hafði samband við Þorkel V. Þorsteinsson, Kela, aðstoðarskólameistara FNV og lagði fyrir hann örfáar spurningar.

Helgarnámið; getur þú sagt mér frá því stórmerkilega námi og mikilvægi þess?„Helgarnámið í bifvélavirkjun, húsasmíði, rafvirkjun og kvikmyndagerð er ein af skrautfjöðrum skólans. Vel á annað hundrað nemendur sækja helgarnámið eins og sjá má á bílaflotanum fyrir utan verknámshúsið allar helgar. Þetta nám býður nemendum upp á að stunda iðn- og starfsám án þess að raska búsetu sinni. Það stóreykur svo líkurnar á því að viðkomandi og fjölskylda hans búi áfram í heimabyggð í stað þess að flytjast búferlum og koma ekki aftur heim.“

Hvernig er staðan á heimavistinni? „Heimavistin er smekkfull með 92 íbúa. Þetta þýðir að helgarnemar hafa ekki komist að á heimavistinni fram að þessu. Til þess að mæta aukinni eftirspurn eftir gistingu um helgar hefur skólinn endurgert húseign sína að Kirkjutorgi 1 og innréttað með sjö tveggja manna herbergjum sem þegar hafa verið tekin í notkun. Þá er verið að endurnýja neðstu hæðina undir matsal heimavistarinnar sem bætir stöðuna töluvert.“

Nú hefur þú starfað við skólann ansi lengi, hver er mesta byltingin frá því þú byrjaðir? „Ég hóf störf við skólann haustið 1980 á öðru starfsári hans og hef því starfað við hann í 44 ár. Á þeim tíma voru nútíma tölvur óþekktar og fyrsta haustið sem ég hóf störf voru stundatöflurnar gerðar í Háskóla Íslands í tölvu sem stjórnað var með gataspjöldum. Innleiðing einmenningstölva á níunda áratug síðustu aldar gerbreytti öllu starfsumhverfi í skólanum fyrir nemendur, kennara og annað starfsfólk. Þá má ekki gleyma byggingu bóknámshússins 1994, stækkun verknámshússins 2010, tilkomu fjarnámsins og kennslu í fjarviðurkenningu á tilvist hans, en það fundaformi sem náði hæstu hæðum á hefur breyst mikið til batnaðar í seinni tímum Covid.“

Er munur á unga fólkinu þá og nú? „Í rauninni eru ungmenni í dag ekkert öðruvísi en ungmenni áður fyrr. Þau hafa í grunninn sömu þarfir og þrár. Normin hafa hins vegar breyst og margt sem var talið sjálfsagt áður fyrr er ekki ásættanlegt í dag og öfugt. Hins vegar fer ekki hjá því að tölvu- og símavæðingin hafa gerbreytt viðfangsefnum ungmenna sem í dag eyða löngum stundum í gerviveröld internetsins. Þessi þróun er í senn ógnandi og afar spennandi, ekki síst í ljósi öflugrar gervigreindar og allra þeirra möguleika sem hún býður upp á. Það verða ungmenni nútímans sem munu leiða þessa þróun til framtíðar og vonandi fá það besta út úr henni.“

Er eitthvað sem þú saknar frá því í denn? „Þegar horft er um öxl til liðins tíma í bullandi nostalgíu má ekki gleymast að tíðarandinn var annar og maður sjálfur á öðru aldursskeiði en í dag. Ég minnist sérstaklega þess eldmóðs sem hefur einkennt uppbyggingu skólans í gegnum tíðina. Það hefur á köflum virkilega þurft að hafa fyrir viðurkenningu á tilvist hans, en það hefur breyst mikið til batnaðar í seinni tíð. Það er ljóst að án þess frábæra starfsfólks og nemenda sem sótt hafa skólann væri hann ekki á þeim stað sem hann er í dag. Þróun og vöxtur skóla byggir einmitt á þessum tveimur stoðum auk samstöðu um hvert skuli halda. Þá sakna ég skemmtilegra kynna við þá fjölmörgu nemendur sem ég hef haft kynni af í gegnum tíðina svo ekki sé minnst á allt samstarfsfólkið. Það er sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með þroskaferli ungmenna frá fyrstu skrefunum í skólanum til loka náms þegar þau halda á vit ævintýranna sem þeirra bíða.“

Þó þetta væru frábær lokaorð hjá Kela þá stóðst blaðamaður ekki freistinguna sem gamall nemandi að lýsa því yfir að verða fyrir gríðarlegum vonbrigðum ef hann henti ekki á mig einum fimmaur í lokin og að sjálfsögðu stóð ekki á svari hjá Kela og fullkomið að enda á honum.

Torfi var handtekinn í bankanum fyrir það eitt að kynna dóttur sína fyrir gjaldkeranum.
- Nú, hvað sagði hann?
- Þetta er Rán.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir