Hefðu báðar viljað spila aðeins meira
Skagstrendingarnir og Tindastólsstúlkurnar Birgitta Rún Finnbogadóttir og Elísa Bríet Björnsdóttir hafa síðustu daga verið með U17 landsliði Íslands í knattspyrnu en liðið hefur nýlokið þátttöku í undankeppni EM 2024/25 en keppnin fór fram í Skotlandi. Liðið lék þrjá leiki, mættu Skotum, Pólverjum og Norður-Írum og vann einn leik en tapaði tveimur. Feykir lagði í morgun nokkrar spurningar fyrir Elísu Bríeti.
Skotar unnu riðilinn, unnu alla sína leiki og þar á meðal Ísland 2-0. Ísland tapaði síðan fyrir liði Póllands 1-0 en lagði síðan Norður-Íra 3-0 í lokaleiknum.
„Við Birgitta hefðum báðar viljað spila kannski aðeins meira en auðvitað er bara heiður að fá yfir höfuð að spila í landsliðstreyjunni,“ svaraði Elísa Bríet þegar Feykir spurði hvort þær hefðu verið sáttar við frammistöðu sína og liðsins. „Okkur fannst báðum frammistaða okkar fín þegar við fengum að spila og svo líka á æfingum. Mér fannst frammistaða liðsins góð, markmiðið var auðvitað fyrsta eða annað sæti í riðlinum en við lentum í þriðja. Hins vegar skipti öllu máli að við næðum að halda okkur í A deild fyrir næstu undankeppni EM, það tókst.“
Hvar var verið að spila og var góð stemning í hópnum? „Við spiluðum í Skotlandi sem var mjög gaman. Skotland er skemmtilegt land og svo vorum við líka heppnar að vera á hóteli nánast í miðbæ Glasgow. Mér fannst góð stemning í hópnum, við vorum góð liðsheild og gerðum þetta í sameiningu.“
Hvað er gert þegar ekki er verið að spila, eruð þið að spila FIFA eða bara að læra? „Þegar við erum ekki að keppa eða á æfingu þá reynum við að læra aðeins, við höfum nokkrum sinnum fengið að fara niður í bæ að versla, en annars gerum við nánast bara það sem við viljum, förum í sjúkraþjálfum ef þess þarf eða förum í einhverja leiki með stelpunum.“
Hvað gerist næst hjá U17 liðinu? „Næsta verkefni hjá U17 er æfingamót í Portúgal í janúar svo er hin undankeppnin fyrir EM í mars og við vonumst svo auðvitað til að komast alla leið á EM næsta sumar.“
Fótbolti.net valdi þig efnilegasta leikmann Bestu deildarinnar. Hvað segirðu um það? „Mér finnst geðveikt að vera valin efnilegasti leiknaður Bestu deildarinnar á Fótbolti.net. Það er auðvitað alveg frábært en ég get samt ekki alveg sagt að ég hafi verið að búast við þessu. Hins vegar er ég mjög ánægð og sátt með tímabilið í ár,“ segir Elísa Bríet að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.