Fornverkaskólinn fékk góða heimsókn
feykir.is
Skagafjörður, Austur-Húnavatnssýsla, Vestur-Húnavatnssýsla
26.09.2024
kl. 13.10
Dagana 17.-18. september fékk Fornverkaskólinn nemendahóp af arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands í heimsókn. Hópurinn kom í Skagafjörð m.a. til að kynnast torfarfinum á Íslandi en eins og margir vita er af nógu að taka í þeim efnum í firðinum. Dagskráin hófst með kynningu á Víðimýrarkirkju. Þá var farið á skrifstofuna í Glaumbæ þar sem hópurinn fékk kynningu á torfi, mismunandi hleðslugerðum og verkfærum svo fátt eitt sé nefnt, og loks var gengið um sýningarnar á safnsvæðinu.
Á miðvikudeginum fór hópurinn í Tyrfingsstaði þar sem þeir kynntust Fornverkaskóla- og Tyrfingsstaðaverkefnunum, gripu í torftöku og -ristu með Helga Sigurðssyni, kennara á torfhleðslunámskeiðum Fornverkaskólans og spreyttu sig á uppmælingum og skissu-teikningum í gömlu húsunum. Kalt var og blautt þann daginn, en nemendur létu það ekki á sig fá og voru afar iðin og áhugasöm. Deginum lauk með heimsókn í gamla bæinn á Stóru-Ökrum, þar sem Sigríður Sigurðardóttir sagði frá sögu staðarins og spjallaði um mismunandi grindargerðir í timburhúsum frá fornu fari.
Fornverkaskólinn þakkar nemendahópnum og kennurum við Listaháskóla Íslands kærlega fyrir skemmtilega og gefandi samveru, Stínu og Sigga á Tyrfingsstöðum fyrir hlýjar móttökur, Helga fyrir kennsluna og Sirrí fyrir kynninguna á Stóru-Ökrum!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.