Farið yfir verkefnastöðu Húnabyggðar

MYND FACEBOOK HÚNABYGGÐAR.
MYND FACEBOOK HÚNABYGGÐAR.

Á fundi byggðaráðs Húnabyggðar fór sveitarstjóri yfir helstu verkefni sveitarfélagsins en nokkrum stórum verkefnum er lokið eða rétt að ljúka.

Fram kom að framkvæmdum við Ennisbraut er lokið og þar hafa verið gerðar miklar vegabætur og þá var einnig ráðist í frekar stórt malbikunarverkefni á Blönduósi.

Nýtt gólf er komið á íþróttahúsið sem verður bylting fyrir iðkendur sem eru að mestu leyti börn og unglingar. Ákveðið var að setja parketgólf ofan á græna dúkinn sem var. Undir parketinu er fjöðrunarbúnaður þannig að rétt mýkt fáist í gólfið. Lokafrágangur stendur nú yfir og ráðgert er að íþróttahúsið opni á næstu dögum.

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Skjólinu sem er félagsmiðstöð unga fólksins. Það er búið að taka aðstöðu Skjólins á annarri hæð í félagsheimilinu algjörlega í gegn og setja þar lyftu. Í Skjólinu eru framkvæmdir einnig á lokametrunum og ráðgert er að unga fólkið geti byrjað að nota aðstöðuna á næstu dögum.

Í skoðun eru hvaða verkefni verða kláruð á árinu en átta mánaða uppgjör sveitarfélagsins sem er í vinnslu mun ráða því hversu mikið verður framkvæmt fram að áramótum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir