Rabb-a-babb 219: Hrund á Sjávarborg
Hrund Jóhannsdóttir á Hvammstanga fékk það verðuga verkefni að svara Rabb-a-babbi í Feyki og hún var eldsnögg að tækla það. Hrund er fædd árið 1987 eða um það leyti sem Whitney Houston fór á toppinn með I Wanna Dance With Somebody og ein mesta orkuballaða sögunnar, Alone með Heart, var að gera það gott. Hrund er dóttir Jóhanns Albertssonar og Sigríðar Lárusdóttur og því alin upp í Vestur-Húnavatnssýslu. Hún er gift Gunnari Páli og saman eiga þau tvö börn, Heklu Sigríði 7 ára og Val Helga 3ja ára.
Hrund rekur veitingastaðinn Sjávarborg á Hvammstanga en hún er með BS í ferða-málafræði frá Háskóla Íslands. Þegar hún svaraði Rabbinu um miðjan júlí sá hún fram á annasamt sumar á Sjávarborg og leiksskóla- & skólafrí með börnunum samhliða því.
Hvernig nemandi varstu? Verandi dóttir fyrrum kennara og skólastjóra, komst ég ekki upp með annað en að standa mig.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Fallegt veður, góður matur og skemmtilegir gestir. Ekkert eitthvað ákveðið sem stóð upp úr nema góðar minningar um frábæran dag.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ætlaði mér alltaf að verða leik- og söngkona.
Besti ilmurinn? Nýslegið gras eða nýbökuð súkkulaðikaka.
Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Í partýi í Naustabryggjunni hjá Margréti í Glaumbæ haustið 2007.
Hvernig slakarðu á? Með góða hljóðbók í eyrunum að prjóna eitthvað fallegt.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég horfi nánast aldrei lengur á línulega dagskrá, þannig að Netflix eða Disney plús er oftast fyrir valinu. Ég elska allt með ofurhetjum, nornum, vampýrum, varúlfum og geimverum. Er líka sökker fyrir góðu búningadrama.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Michael Jordan verður alltaf uppáhalds.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Að finna hluti sem enginn finnur.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég elska mat en er ekkert sérlega hrifin af því að elda. Það þarf þá að vera eitthvað fljótlegt.
Hættulegasta helgarnammið? Hraunbitar og nóakropp. Súkkulaði er mitt kryptonite.
Hvernig er eggið best? Hleypt egg eru langbest.
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ég fékk górillubangsa að gjöf frá Agli heitnum dýralækni sem ég á enn. Hann heitir auðvita í höfuðið á honum, Egill.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég er meiri extrovert en ég hef gott af.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Tilætlunarsemi og tvöfeldni.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Fyrr er fullt en út af flýtur.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Hestastúss með mömmu og pabba. Reiðtúr á Topari gamla þar sem ég sofnaði og datt af baki fimm ára gömul.
Hver er uppáhalds bókin þín eða rithöfundur? Ég er alltaf að hlusta á einhverja hljóðbók. Uppáhalds bækurnar sem ég hef hlustað á nýlega eru Allt í Himnalagi hjá Eleanor Olipant eftir Gail Honeyman og Menntuð eftir Tara Westover. Ég held líka alltaf upp á bókina Maður sem heitir Ove eftir Fredrik Backman. Ef ég á að nefna eitthvað eftir íslenskan höfund þá hafði ég mjög gaman að Bergrún og Brá seríunni eftir Emil Hjörvar Petersen.
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Sögu Garðars, Helgu Brögu og Önnu Svövu því þetta eru allt svo fyndnar og skemmtilegar konur. Held það yrði skemmtilegt kvöld.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi ferðast aftur í tímann og eyða tíma með mömmu minni. Blessuð sé minning hennar.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Alltaf svöng.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Bali í einhverja slökun og dekur.
Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Prófa að fara ein í frí til útlanda (með fullri virðingu fyrir fjölskyldu og vinum), byggja mitt draumahús og skrifa bók.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.