Beint millilandaflug til Norðurlands: Lykill að fjölbreyttari og stöðugri ferðaþjónustu

Freyja Rut Emilsdóttirþ MYND AF NETINU
Freyja Rut Emilsdóttirþ MYND AF NETINU

Nýlega komu fyrstu flug easyJet frá London annars vegar og Manchester hinsvegar beint á Akureyrarflugvöll, flogið verður tvisvar í viku út mars. Þetta skiptir ferðaþjónustu á Norðurlandi öllu gríðarlegu máli. Skagafjörður hefur alla möguleiki á að vera vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn, hér eru fjölbreyttir útivistarmöguleikar, mikil saga og menning, fjöldi safna og sýninga, og náttúrufegurð allan ársins hring.

Þetta þarf auðvitað ekki að segja neinum sem hér býr eða hingað hefur komið. En þrátt fyrir þessa miklu möguleika hefur ferðaþjónustan á svæðinu að mestu verið háð ferðamönnum sem koma til landsins um Keflavíkurflugvöll og þurfa að keyra hringveginn á sem fæstum dögum og bruna í gegnum svæðið með sem fæstum stoppum. Þess vegna er beint millilandaflug til Akureyrar svo mikilvægt.

Beint millilandaflug til Akureyrar opnar nýja og spennandi möguleika fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi. Með því að auka aðgengi er hægt að ná til breiðari hóps ferðamanna. Ferðamanna sem koma utan háannatíma og stoppa lengur á svæðinu en flestir sem heimsækja svæðið á sumrin gera. Flugið fjölgar ekki aðeins heildarfjölda ferðamanna á svæðinu heldur dregur einnig úr árstíðabundnu sveiflum í ferðaþjónustunni. Í stað þess að vera aðallega háð sumartúristum getur ferðaþjónustan á Norðurlandi nú byggt upp sterkari grunn allan ársins hring.

Þetta opnar nýja möguleika til að bjóða upp á einstaka vetrarupplifun, svo sem norðurljósaskoðun, skíði og snjóbretta og aðra vetraríþróttir, ásamt sögu- og menningartengdum upplifunum. Með því að lengja ferðamannatímabilið er hægt að skapa stöðugri störf í ferðaþjónustunni allt árið um kring og styrkja þannig atvinnulífið á svæðinu. Með aukinni ferðaþjónustu koma til með að myndast fleiri störf, aukin eftirspurn eftir vörum og þjónustu og þar með líflegri samfélög. Þetta er tækifæri til að stækka kökuna fyrir alla og skapa meiri lífsgæði.

Til að ná þessum árangri þarf að vinna saman. Flugfélög, ferðaþjónustufyrirtæki, sveitarfélög og aðrir hagsmunaaðilar þurfa að vinna saman að því að markaðssetja svæðið sem áfangastað og bjóða upp á heildstæða og aðlaðandi upplifun fyrir ferðamenn. Með auknu aðgengi, fjölbreyttari úrvali og lengri ferðamannatímabili getur Skagafjörður orðið að einum vinsælasta ferðamannastað á Íslandi.

Tækifærin eru óendanleg og það er kominn tími til að nýta þau.

Freyja Rut Emilsdóttir
framkvæmdastjóri 1238 á Sauðárkróki

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir