Heilbrigðisþjónusta utan lögheimilis – Mismunun og kostnaður foreldra
Nú er verið að ganga til kosninga og því vill ég nýta tækifærið til að vekja athygli á mikilvægi heilbrigðisþjónustu utan lögheimilis, sérstaklega þegar kemur að þjónustu fyrir börn, kostnaður og álag á fjölskyldur sem þurfa að ferðast langar leiðir til að leita eftir heilbrigðisþjónustu. Kerfið þarf að bæta og tryggja að allar fjölskyldur, óháð búsetu, fái sanngjarna meðferð þegar kemur að aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Að eiga barn, fylgir fullt af skyldum, ein af þeim er að huga að heilsu þeirra og öryggi framar öllu. Að búa út á landi gerir mörgum fjölskyldum erfitt fyrir að sækja þá þjónustu sem börnin þeirra þurfa á að halda ef eitthvað amar að.
En börnin okkar verða líka veik og þurfa að eiga reglulegt samtal/skoðun við sérfræðing fyrir sunnan oftar en þessar 4 ferðir á ári sem samkvæmt reglugerð Sjúkratrygginga Íslands er gert ráð fyrir, og/eða passa ekki undir skilgreiningu Sjúkratrygginga til endurtekina ferða, eða þurfa á meðferð og eftirliti hjá tannréttingarsérfræðingi ( laus tæki en ekki föst tæki) oftar en þessar ferðir gera ráð fyrir.
Það þarf að gera kerfið meira fyrir fólkið, þannig að börnin okkar sem eiga heima út fyrir höfuðborgarsvæðið geti notið sömu réttinda til þess að fara til sérfræðilæknis ef upp koma veikindi sem eru ekki skilgreind í reglugerð Sjúkratrygginga, það er verið að mismuna börnum eftir búsetu og því þarf að breyta.
Ójöfnuður á ferðakostnaði – Skekkja í kerfinu
Það er ekki aðeins ferðakostnaðurinn sem veldur áhyggjum, heldur einnig hvernig ferðakostnaðurinn er greiddur út. Ef foreldri þarf að keyra með barn sitt til læknis á einkabíl, fær það aðeins 31,61 kr. fyrir hvern ekinn km, samkvæmt núverandi reglugerðum. Til samanburðar fá ríkisstarfsmenn 141 kr. fyrir hvern ekinn km að 10.000 km. Þetta er augljós skekkja í kerfinu – það er óeðlilegt að Alþingismenn fái mun meira fyrir ferðalög sín en foreldrar barna sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. 31,61 kr.pr.km dugar ekki fyrir olíukostnaði á venjulegan fjölskyldubíl í dag til og frá höfuðborgarsvæðinu.
Hverju viljum við breyta?
Við þurfum að tryggja að allar fjölskyldur, óháð búsetu, fái sömu heilbrigðisþjónustu og aðgang að sérfræðilæknum þegar á þarf að halda. Það þarf að breyta reglugerðum Sjúkratrygginga þannig að foreldrar, sérstaklega á landsbyggðinni, geti fengið fulla endurgreiðslu fyrir ferðakostnað, þar með talið dvalar- og uppihaldskostnað ásamt því að vinnutap sé metið og tekið með í reikninginn þegar fólk þarf að ferðast langar leiðir til að sækja sér heilbrigðisþjónustu.
Mikilvægt er að endurskoða þessar reglur og tryggja að þjónustan sé á jafnréttisgrundvelli og aðgengileg fyrir alla landsmenn, óháð því hvar þeir búa.
Hákon Hermannsson,
skipar fjórða sætið á lista Miðflokksins í NV-kjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.