Jarðstrengir lagðir í Húnaþingi vestra
RARIK hefur í sumar staðið að nokkrum framkvæmdum við lagningu jarðstrengja í Húnaþingi vestra í samræmi við framkvæmdaáætlun sína. Sagt er frá því á heimasíðu sveitarfélagsins að þau verkefni sem eru yfirstandandi eru Fitjárdalur allur, Miðfjörður að Réttarseli og Hrútafjörður frá Reykjum að Hvalshöfða. Til viðbótar við þetta hefur verið lögð strenglögn frá aðveitustöðinni í Hrútatungu að Staðarskála.
Vert er að benda áhugasömum á að nú er hægt að nálgast upplýsingar um verkefni RARIK á kortasjá á forsíðu heimasíðu þeirra. Smellt er á flipann framkvæmdir og hægt að þysja inn á einstaka svæði.
Samkvæmt framkvæmdaáætlun RARIK stendur til að halda áfram með Vatnsneslínu að austan og línur á Heggstaðanesi á árinu 2024 og á árinu 2025 er áformað að halda áfram með strenglagnir í Miðfirði.
Heimild: hunathing.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.