Húnabyggð hlaut Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir uppbyggingu við Þrístapa
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2024 koma í hlut Húnabyggðar fyrir uppbyggingu við Þrístapa en verkefnið var á höndum Húnavatnshrepps áður en sveitarfélögin sameinuðust. Þrístapar er menningarsögulegur ferðamannastaður og þar er að finna síðasta aftökustaðinn á Íslandi. Aftakan fór fram þann 12. janúar 1830 þegar þau Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru hálshöggvin. Sagan hefur verið vinsælt viðfangsefni, bæði í skáldsögum og kvikmynd, eins og Húnvetningar flestir þekkja, segir á huni.is.
Þrístapar hafa verið gerðir aðgengilegir og öruggir fyrir ferðamenn til að upplifa og fræðast um söguna. Uppbygging hefur staðið yfir um nokkurt skeið en þarna hefur verið komið fyrir göngustíg, upplýsinga- og fræðsluskiltum, bílastæði og salerni. Minningarsteinn er á aftökustaðnum en höggstokkurinn og öxin eru varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.
Frétt tekin af huni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.