Mjög gaman að skipuleggja veisluna
feykir.is
Skagafjörður, Mannlíf
12.04.2025
kl. 15.23
Árelía Margrét Grétarsdóttir býr á Hólmagrundinni á Króknum og verður fermd af sr. Sigríði Gunnarsdóttur. Árelía Margrét fermist þann 13. apríl í Sauðárkrókskirkju og er dóttir Ásu Bjargar Ingimarsdóttur og Grétars Þórs Þorsteinssonar. Hún sagði Feyki frá undirbúningi fermingarinnar og ýmsu öðru tengt deginum.
Hvernig hefur fermingarundirbúningnum verið háttað? Fermingarfræðslan byrjaði á fimm daga ferð í Vatnaskóg og seinna var dagsferð á Löngumýri. En ég hef líka farið í fermingarfræðslu hjá sr. Sigríði Gunnarsdóttur, ásamt messum. Það er svo búið að vera mjög gaman að skipuleggja veisluna sem verður eftir ferminguna sjálfa.
Hvar verður veislan haldin? Veislan verður haldin í matsal heimavistar FNV. Við buðum um 120-130 manns, það komast samt alls ekki allir.
Er búið að ákveða hvað verður á matseðlinum? Já, það verður mexíkósk kjúklingasúpa með öllu tilheyrandi, smáréttir og kökur.
Er búið að ákveða fermingarfötin? Já, hvítur satín/silki kjóll úr Cosmo, hvítir strigaskór og hvítur blazer jakki.
Hvað er á topp 3 listanum sem þú óskar þér í fermingargjöf? Utanlandsferð, sjónvarp og peningur.
Ef þú mættir bjóða einhverjum þekktum einstaklingi í veisluna þína hver yrði fyrir valinu og af hverju? Sveindís Jane, af því að hún var einu sinni þjálfarinn minn og er skemmtileg, mig langar að hitta hana aftur. Hún er líka mjög góð í fótbolta.
Hefur þú farið í margar fermingarveislur sjálf og var eitthvað í þeim veislum sem þér fannst vera skemmtilegt og þig langar til að gera í þinni veislu líka? Já, nokkrar, já það var Photo booth og nammibar, ég ætla að hafa bæði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.